Eru starfsdagar í skólanum?

2015-07-18 12.59.20

Það getur verið ansi snúið að eiga barn í leik- eða grunnskóla þegar starfsdagar skella allt í einu á. Eins og þeir gera alltaf.

Þið verðið að hringja í afana og ömmurnar, sem reyndar eru yfirleitt fullspræk og langt frá starfslokum en geta auðvitað orðið hnikað ýmsu til fyrir barnabörnin – en bara hálfan daginn. Í versta falli þarf að hringja í langömmu og langafa og koma börnunum í pössun. Það er næstsísti kosturinn enda fólk á þessum aldri orðið ærið aldrað og má við litlu. En sumir eru hressari en aðrir. Þið metið þetta.

Leikum við langömmu

Það er reyndar mjög góð hugmynd að leyfa ungviðinu að leika við langafa og langömmu. Þau eldri geta sagt þeim yngri sögur úr æsku sinni, öllum kílómetrunum sem þau þurftu að ganga í skóla, vinnunni og ýmsu öðru sem eru oftar en ekki skilar sér í undrun barnsins yfir því sem forfeðurnir hafa gengið í gegnum.

Svo eru hinir möguleikarnir tveir: Að taka sér frí í vinnunni eða taka börnin með í vinnuna.

Auðvitað er sætt og gaman að verja tíma með börnunum. Hugsunin er falleg. En starfsdagar, vetrar- og vorfrí í grunnskólunum geta flækt lífið svolítið. Ekki hafa samviskubit. Þið eruð ekki ein í þessu.

Í grunnskólum eru fimm starfsdagar á einum vetri. Tveir eru að hausti en þrír á vorönn. Í sumum skólum bætast við þriggja daga haustfrí og tveggja daga vorfrí eftir áramótin. Þetta er samanlagt heil vinnuvika sem foreldrar geta nýtt til að hliðra til í vinnu og notið lífsins með börnunum.

Starfsdagar = hausverkur

Hægt er að stilla á sérstaka krakkagátt á Netflix en þar er ekki boðið upp á bannaðar myndir.

Það er alltaf hægt að bjarga deginum með Netflix.

En vetrarfrí, vorfrí og starfsdagar, eins nauðsynlegir og þeir eru fyrir kennara og annað starfsfólk getur verið heilmikill hausverkur fyrir blessuðu foreldrana.

Hvað á að gera á starfsdögum í skólanum?

Forsendurnar hér eru þær að þið hafið tekið ykkur frí á starfsdegi. Sofið frameftir og vaknið í seinna lagi. Byrjið daginn á kósí hátt, verið öll sömul í náttfötunum og drekkið kakó í morgunmat. Þið getið sett í vél á meðan börnin eru að horfa á sjónvarpið eða að leika sér.

Farið í ævintýraferð

Í kringum hádegisbil er tími til að fara út. Það er upplagt að skella sér á leiksvæði, róla og fara í eltingaleik í kastala. Síðan er tilvalið að skella sér á bókasafn, safn, á Ljósmyndasafn Reykjavíkur, kaffihús eða á Sjóminjasafnið eða jafnvel í stutta fjallgöngu eða gönguferð. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er gott að ganga upp á Úlfarsfell í Mosfellsbæ, Helgafell ofan við Hafnarfjörð eða á Kögunarhól á Selfossi. Það er alltaf einhvers staðar lítið fell eða hæð sem litlir fætur þola að ganga upp á.

Ratleikur í Heiðmörk

Heiðmörkin er líka alltaf klassísk enda ótal möguleikar þar til að skemmta sér. Í Heiðmörk er líka ratleikur sem Björk Sigurðardóttir, kennari við Ísaksskóla, bjó til árið 2012. Ratleikurinn krefst pínulítils undirbúnings. En hann má leika allan ársins hring.

Hvaðan ertu að koma og hvert ertu að fara? Björk leiðbeinir þátttakanda í ratleiknum í Heiðmörk. MYND / Björk Sigurðardóttir

Hvaðan ertu að koma og hvert ertu að fara? Björk leiðbeinir þátttakanda í ratleiknum í Heiðmörk. MYND / Björk Sigurðardóttir

Ef þið viljið leika að álfum og huldufólki þá er Hellisgerði í Hafnarfirði staðurinn.

Ef veðrið er gott má skella sér í bíltúr, jafnvel til að skoða fossinn Glanna í Norðurá í Borgarfirði.

Ef þið eigið leið í gegnum Borgarnes eða eruð í Borgarnesi þá er það frábært hugmynd að finna Bjössaróló. Það er með skemmtilegri róluvöllum landsins!

Síðdegis er frábær hugmynd að skella sér í sund og hreinsa af sér ferðarykið.

Hvað er í boði í dag?

Það er saman hversu vel maður telur sig fylgjast með skóladagatalinu. Starfsdagar, vor- og vetrarfrí virðast alltaf koma án minnsta fyrirvara – meira að segja þótt dagssetningarnar hafi verið fyrir löngu færðar inn í dagatalið.

Þegar það gerist og maður nær ekki að skipuleggja daginn út í ystu æsar, það er að segja ef hægt er að losna úr vinnu, þá er gott að vita af viðburðadagatali Úllendúllen. Dagatalið er auðvitað ekki fullkomið og þess vegna megið þið alveg létta undir með okkur og senda tillögur að viðburðum. Það er nóg að senda hlekk á viðburð á netfangið ullendullen@ullendullen.is.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd