Settirðu niður kartöflur í vor og átt enn eftir að taka upp? Eða veistu um einhvern sem er í þeirri stöðu? Segja má að nú séu allra síðustu forvöð að taka þær upp því nú er vetrarfrostið farið að gera vart við sig. Þá er hætt við að þær skemmist sem enn eru í jörðu.
Þó eru þekkt dæmi um það á síðustu árum að jörð haldist að mestu frostlaus sums staðar á Suður- og Vesturlandi, jafnvel fram í desember þó svo lofthiti fari niður fyrir frostmark og frjósi við yfirborð. Á það er þó ekki hægt að treysta og sennilega best að drífa þetta bara af.
Kartöflur eru ekki bara kartöflur
Hvað þekkir þú heiti á mörgum íslenskum kartöflutegundum? Margir kannast við gullauga, rauðar íslenskar og gular íslenskar. En fjölbreytileikinn er meiri en margir gera sér grein fyrir. Svo geta menn deilt um hvaða tegund er best. Íslenskar tegundir eiga það þó flestar sameiginlegt að þær eru næringarríkar og hafa mikið geymsluþol.
Skv. Wikipediu má rekja uppruna kartaflna til Andersfjallanna í Suður-Ameríku þar sem þær hafa verið ræktaðar öldum og jafnvel árþúsundum saman. En fyrsta þekkta kartöfluuppskera á Íslandi var á Bessastöðum árið 1758.
Það er gaman að taka upp kartöflur. Allir í fjölskyldunni geta gert það saman enda vinna margar hendur létt verk. Gott er að flokka kartöflurnar jafnóðum. Þeir sem eru orðnir nógu gamlir til að standa í lappirnar og gera greinarmun á litlu, meðalstóru og litlu eru tilvaldir í slík ábyrgðarhlutverk. Smælkið er best að borða sem fyrst, sumt er geymt sem útsæði fyrir næstu uppskeru og annað má borða síðar þegar líða fer á veturinn.
Nýjar kartöflur með smjöri og kannski smá salti eru mikill herramannsmatur að hausti og eitt er víst að fátt bragðast betur en það sem maður hefur sjálfur lagt hönd á plóg við að afla og rækta.
Pingback: Guðjón Ragnarsson