
Slakað var talsvert á heilmiklum sóttvarnaraðgerðum vegna COVID-19 og tóku breyttar reglur um það í gildi í dag. Nú getur íþróttastarf, bæði æfingar og keppni barna og fullorðinna hefjast, fólk staðið einum metra nær öðrum en áður og ýmislegt fleira.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, að með þeim hörðu takmörkunum sem hafa gilt síðastliðna þrjár vikur hafi tekist að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu kórónuveirunnar. Það sé mat sóttvarnalæknis að nú sé tímabært að ráðast í varfærnar tilslakanir.
„Eins og áður verðum við að gæta að okkar einstaklingsbundnu sóttvörnum, þvo hendur vel, vernda okkar viðkvæmasta fólk og virða nálægðarmörk. Þessi atriði skipta öllu máli þegar kemur að baráttu okkar við Covid-19,‟ skrifar Svandís.
Reglurnar sem taka gildi í dag fela í sér að nú mega 20 koma saman og heimilt er að opna sundstaði og heilsurækt á ný með takmörkunum. Íþróttastarf og sviðslistir hefjast einnig á ný og skíðasvæðin geta opnað. Í skólum breytast nálægðarmörk á öllum skólastigum úr 2 metrum í 1 og leik- og grunnskólabörnum er nú heimilt að stunda skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf.
Svandís bendir á að þann 9. apríl tók gildi ný reglugerð um aðgerðir á landamærum. Samkvæmt henni séu skýrari kröfur gerðar um skilyrði fyrir heimasóttkví varðandi húsnæði og umgengnisreglur. Þeir sem ekki geti verið í heimasóttkví sem uppfylli sett skilyrði þurfi að fara í sóttvarnahús. Ekkert gjald er tekið fyrir dvölina í sóttvarnarhúsi. Meginmarkmiðið með þessum reglum er að lágmarka eins og kostur er líkur á því að smit berist inn í landið.
„Mikilvægt er að við virðum öll reglur um sóttkví og sýnatökur við komu til landsins svo við komum í veg fyrir að veiran berist hingað til lands að utan,‟ heldur Svandís áfram.
Höfum ekki enn náð toppnum
Hún segir mjög ánægjulegt að markmið um bólusetningar á fyrsta ársfjórðungi náðust. Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2021 hafi 49.300 einstaklingar verið bólusettir með fyrri eða báðum skömmtum bóluefnis. Fleiri hafi verið bólusettir síðustu daga, sem dæmi um 6.630 einstaklingar bólusettir við Covid-19, þar af 2.330 með bóluefni Pfizer/BioNTech og 4.301 með bóluefni Oxford/AstraZeneca.
Þetta jafngildir tæplega 2,4% þeirra 280 þúsund einstaklinga sem til stendur að bólusetja við Covid-19.
Samtals höfðu tæplega 24% þeirra sem fyrirhugað er að bólusetja fengið fyrri eða báða skammta bóluefnis gegn Covid-19 í gær.
Markmiðið um að ljúka bólusetningum í lok júlí stendur enn og er ráðherra bjartsýn á að það náist.
Baráttunni okkar við Covid-19 hefur oft verið líkt við fjallgöngu. Gangan er heldur löng og hún tekur á, og við höfum ekki enn náð toppnum. Við erum þó sannarlega á réttri leið og ég er viss um að við náum á toppinn saman áður en langt um líður. Við þurfum þó áfram að sýna þolinmæði og samstöðu, treysta hvert öðru og ráðleggingum okkar bestu sérfræðinga. Þannig náum við toppnum að endingu.
Breytingarnar í hnotskurn
- Almennar fjöldatakmarkanir verða 20 manns.
- Sund- og baðstöðum og heilsu- og líkamsræktarstöðvum heimilt að opna fyrir 50% af leyfilegum hámarksfjölda gesta, auk annarra skilyrða.
- Íþróttaæfingar og -keppnir barna og fullorðinna með og án snertinga í öllum íþróttum heimilar. Hámarksfjöldi fullorðinna verður 50 manns en fjöldi barna fer eftir sömu takmörkunum og í skólastarfi.
- Allt að 100 áhorfendur eru leyfðir á íþróttakeppnum og – æfingum í skráðum sætum.
- Skíðasvæðum heimilt að taka á móti 50% af hámarksfjölda móttökugetu hvers svæðis.
- Sviðlistir, þar með talið kórastarf, heimilar með allt að 50 manns á sviði og 100 sitjandi gestum í hverju hólfi, auk annarra skilyrða.
- Hámarksfjöldi við athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga áfram 30 manns en fjölgar í 100 manns við útfarir.
- Öllum verslunum heimilt að taka á móti 5 viðskiptavinum á hverja 10 m², þó að hámarki 100 manns, auk 20 starfsmanna í sama rými og viðskiptavinir.
- Skemmtistöðum, krám, spilasölum og spilakössum heimilt að hafa opið með sömu skilyrðum og veitingastöðum þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar.
- Verklegt ökunám og flugnám með kennara heimilt.
Reglugerð um tilslakanirnar
Skólar: https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=c7998306-0518-4b94-aa53-679745d7e397
Samkomur: https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=71bd992a-6103-4e67-aaca-dd92422f0e5e