Skemmtileg sögustund með drottningunni Starínu

Það er ekki á hverjum degi sem drottning les fyrir börn á Borgarbókasafninu. Það gerði dragdrottningin Starína í Árbænum í dag í boði safnsins.

„Þetta var æðislega gaman. Sögustundir með dragdrottningum eru orðnir mjög vinsælar í Bandaríkjunum. Ég hef gert það áður og þetta mun bara verða algengara,‟ segir dragdrottningin ánægð eftir lesturinn. Um tuttugu börn mættu á safnið ásamt foreldrum og öðru forráðafólki.

Starína mætti reyndar aðeins of seint á sögustundina en afsakaði að það hafi tekið tíma að gera sig klára. Drottningin var að sjálfsögðu uppstríluð í sitt fínasta bleika púss, með kórónu og silfurhanska.

Starína las fyrir áhorfendurna ungu úr bókinni Prinsarnir og fjársjóðurinn. Ævintýrið fjallar um Elenu prinsessu sem gömul kona nemur skyndilega á brott úr töfraríkinu Grænuvöllum. Sigursæli kappinn Magni og feimni bókaormurinn Hugi hefja leit að dýrmætasta fjársjóði landsins sem annar þeirra geti bjargða prinsessunni og gifst henni. En málalokin eru svolítið önnur og hinsegin en aðrar ævintýrasögur um prinsa og prinsessur.

Starína gerði vel við gesti bókasafnsins og ákvað að veita þeim sárabætur fyrir að mæta aðeins of seint. Söng hún lagið Þetta er nóg úr Disney-myndinni Frozen. Meira að segja söngurinn var skemmtileg uppákoma því Starína söng lagið fyrst á ensku og síðan á fjölmörgum tungumálum.

Starína hefur nokkrum sinnum áður lesið upp fyrir unga bókaorma og fjölskyldur þeirra. Hún byrjaði á því um jólin 2018 og hefur síðan þá lesið upp í Bókasafni Kópavogs í fyrra og á Gaypride. Í viðtali í Fréttablaðinu í fyrra segir Starína að hún hafi alltaf verið frekar barnvæn dragdrottning. Hana hafi alltaf langað til að gera meira fyrir krakka og fengið þá hugmynd að hafa samband við bókasöfnin og bjóða upp á lestur.

„Ég hef heyrt að þetta sé vinsælt í Bandaríkjunum. Mér skilst að það sé hópur af dragdrottningum sem vinna við það að lesa fyrir börn á bókasöfnum, í dragi. Þau reyna að lesa hinseginvænar bækur, ef svo má að orði komast en mér skilst samt að þau lesi líka bara alls konar bækur,‟ segir Starína í viðtalinu.

Starína hefur áður lesið bókina Fjölskyldan mín er eftir Ástu Rún Valgerðardóttur og Lára Garðarsdóttir myndskreytti. Sú bók fjallar um mismunandi fjölskyldumynstur. Friðjón á tvær mömmur og lærir í leikskólanum að krakkar eiga mismunandi fjölskyldur. Sumir eigi tvær mömmur, sumir eigi mömmu og pabba, aðrir mömmu, pabba og stjúpforeldra og sum börn ættleidd frá útlöndum. Þannig að ég er að lesa fyrir börnin um fjölbreytileika,‟ segir hún.

 

Vinsælar sögustundir

Lestrarstund Starínu er liður í Krakkahelgum sem haldnar eru aðra helgina í hverjum mánuði á Borgarbókasafni í Árbæ. Vala Björg Valsdóttir, deildarbókavörður á safninu, segir að á krakkahelgum safnsins og sögustundunum sé stundum boðið upp á leikrit, upplestur og ýmislegt fleira. Þetta séu vinsælir viðburðir sem krakkar sæki með foreldrum sínum og öðru forráðafólki. Ókeypis er á viðburðina og allir velkomnir á meðan pláss er laust.

Vala Björg Valsdóttir á bókasafninu í Árbænum.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd