Barnastundir Sinfóníuhljómsveitarinnar hafa notið mikilla vinsælda í gegnum tíðina. Tónlistin er sniðin að ungum áhorfendum. Tónleikarnir eru heldur ekki langir eða aðeins hálftími. Þeir henta því afar vel þeim ungu áhorfendum sem hafa ekki eirð í sér að sitja heila tónleika.
Þröstur Thor Bragason, tæknigúru hjá verkfræðistofunni EFLU, fór með konu sinni og sex og hálfs árs gamalli dóttur á Barnastund Sinfóníunnar í Norðurljósasal Hörpu í dag og skemmtu þau sér konunglega.
Á Barnastundinni í dag lék Sinfóníuhljómsveitin með Sigrún Eðvaldsdóttur í fararbroddi Vorið úr Árstíðunum eftir ítalska tónskáldið Vivaldi. Tónleikagestir fengu að heyra Kvæðið um fuglana og Dans svanna ásamt mörgu fleiru skemmtilegu sem laðar vorið fram í sinni áhorfenda.
„Þetta var virkilega létt og góð stemning í boði Sinfóníunnar, sem lét ljós sitt skína eins og venjulega. Krakkarnir voru líka til fyrirmyndar en auðvitað eiga sumir áhorfendur erfitt með að sitja lengi. En þetta var svo skemmtilegt og sumarlegt. Lagavalið var líka miðað að yngstu hlustendunum og afar litríkt og lifandi og undir lokin voru allir farnir að tjútta með,‟ segir Þröstur og finnst þetta frábært framtak hjá Sinfóníuhljómsveitinni.