Ævar: „Mér líður eins og heilinn á mér hafi lent í þurrkara“

Þátttakendur í lestrarátakinu með þeim Guðna Th. Jóhannessyni forseta, Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og Ævari Þór.

„Það hefur verið ótrúlega gaman, forvitnilegt, lærdómsríkt, erfitt og spennandi að standa í þessu átaki síðustu fimm árin. Ég lærði það að lítil hugmynd getur orðið að einhverju risastóru og að ef maður trúir á það sem maður er að gera eru manni allir vegir færir,“ segir rithöfundurinn og leikarinn Ævar Þór Benjamínsson, betur þekktur í hugum margra sem Ævar vísindamaður.

Hann hefur síðastliðin fimm ár staðið fyrir lestrarátaki Ævar vísindamanns. Það síðasta er nú á enda runnið og var dregið í gær úr því með pompi og prakt í Borgarbókasafninu í Grófinni í Reykjavík.

Viðstaddir viðburðinn voru Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Þau drógu út nöfn fimm nemenda og eins foreldris úr lestrarátakspottinum svokallaða. Hinir heppnu verða gerðir að persónum í æsispennandi ævintýrabók eftir Ævar sem kemur út í vor.

Þegar tölur voru teknar saman reyndist met hafa verið slegið í átakinu í ár. Á þeim tveimur mánuðum sem það stóð yfir lásu íslenskir krakkar 91.734 bækur á tveimur mánuðum, en foreldrar þeirra 5.904 bækur. Þetta þýðir að á fimm árum hafa verið lesnar tæplega 330.000 bækur í lestrarátökum Ævars vísindamanns

 

Hellingur af lestrarhestum

Spurður að því hvernig sé að hafa staðið í lestrarátakinu þessi fimm ár segir Ævar:

„Mér líður nákvæmlega núna pínulítið eins og ég hafi verið að hlaupa maraþon, því talningin við síðasta átakið var enn nákvæmari en áður. Þetta voru næstum 100 þúsund bækur, þannig að mér líður pínu eins og heilinn á mér hafi lent í þurrkara sem var að rúlla niður brekku í jarðskjálfta.“

Hann bætir við:

„Að því sögðu; ég er gríðarlega montinn af þessu öllu saman og ekki síst íslenskum lestrarhestum út um allan heim sem tóku þátt, sumir hverjir fimmta árið í röð. Næsta mál á dagskrá er svo að klára bókina, fyrst ég er kominn með sögupersónurnar á hreint!“

 

Í lestrarátakinu voru veittar viðurkenningar fyrir hlutfallslega mesta lestur á hverju skólastigi og sömuleiðis þann skóla sem las hlutfallslega mest í heildina.

Allir þessir skólar fá það í verðlaun að vera skrifaðir inn í síðustu bókina í Bernskubrekum Ævars vísindamanns, Óvænt endalok, sem kemur út í júní:

  • Yngsta stig: Álftanesskóli
  • Miðstig: Árskógarskóli, Dalvíkurbyggð
  • Efsta stig: Þelamerkurskóli
  • Yfir öll skólastig: Grunnskólinn Drangsnesi

Hin sex heppnu sem dregin voru verða gerð að persónum í Óvæntum endalokum. Þau voru:

  • Foreldri: Jórunn Móna Stefánsdóttir í Álftanesskóla.
  • Julía Wiktória Sakowicz, 4. bekk í grunnskólanum á Hellu.
  • Kristbjörg María Álfgeirsdóttir, 3. bekk í Grunnskólanum í Stykkishólmi.
  • Ingunn Jónsdóttir, 2. bekk í Flataskóla.
  • Ísold A Guðmundsdóttir, 6. bekk í Kerhólsskóla.
  • Rakel Líf, 3. bekk Salaskóla.

 

Hér má sjá veggspjaldið um hinsta lestrarátak Ævar vísindamanns.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd