Hólmfríður ræðir um Háskaleikana: „Við vonum að við getum hrætt sem flesta“

Borgarbókasafnið heldur Háskaleikana sem haldnir verða í annað sinn í Borgarbókasafninu í Grófinni í Reykjavík á Safnanótt Vetrarhátíðar 8. febrúar 2019. Háskaleikarnir geta verið dulítið hryllilegir.

Þetta eina kvöld verður bókasafninu breytt í ægilegt drauga- og hryllingshús og geta þar kjarkmiklir krakkar glímt þar við erfiðar gátur og raunir. Þar eiga þau á hættu að rekast á illyrmi og óhræsi í dimmum afkimum safnsins.

En af hverju að hræða líftóruna úr börnum?

Hólmfríður Ólöf Ólafsdóttir er hugmyndasmiður Háskaleikanna og hún svarar því:

„Börn hafa misgaman að því að láta hræða sig en flestum þykir þó gaman að taka þátt í einhverju spennandi og fá hjartað til að slá aðeins hraðar. Í öllu skemmtigörðum er hægt að finna draugahús og rússíbana og munum við mæta hræðslueftirspurninni í ár með miklum sóma. Ég fékk hugmyndina að það væri gaman að gera bókasafnið svolítið draugalegt á Safnanótt og áður en við vissum af var nánast allt húsið undirlagt í alls kyns hellum, draugahúsum, kirkjugarði og fleirum voðalegum stöðum þar sem gestir fengu tækifæri til að sjá hversu kjarkmiklir þeir væru.“

Hér má sjá Hólmfríði gantast með muni úr Háskaleikjunum.

Á bókasafninu verða sex stöðvar á nokkrum hæðum hússins. Sumar stöðvar eru fyrir byrjendur. Svo er alvöru draugahús fyrir krakka sem sækjast eftir meiri spennu en aðrir.

„Við vonum auðvitað að við getum hrætt sem flesta en að allir komi þó glaðir út,“ segir Hólmfríður og bætir við að í fyrra, þegar Háskaleikarnir voru haldnir í fyrsta sinn, mættu tæplega 2.000 manns á safnið við Tryggvagötu til að taka þátt. Stuðið var eftir því, alveg svakalegt.

Háskaleikarnir byrja klukkan 18:00 og standa til klukkan 21:00.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir – sem þora.

 

 Stöðvarnar sem verða í boði

Ærsladraugar og afturgöngur

Ærsladraugar og ýmsar óvættir leynast í húsi hinna framliðnu og ekki er á hvers barns færi að flýja örlög sín og komast klakklaust út. Aðeins þeir allra huguðustu ná að feta sig í gegnum hið voðalega draugahús og horfast í augu við sinn innri ótta.

Slím, slor, hor eða …! Hvað leynist í ógeðskassanum?

Það er áskorun að setja hendurnar ofan í slím en þorir þú að éta það líka? Í slímugum helli leynast áskoranir á færi þeirra allra huguðustu að takast á við.

Nornahellir

Hefur einhver týnt höfði? Það gæti leynst í helli seiðkerlinganna og til að finna það þarf að leysa hrikalegar þrautir til að losna undan álögum nornanna.

Dalur dauðans

Fortíðin reikar og ráfar allt um kring í dal hinna dauðu. Draugar, múmíur og aðrir fortíðarhrellar sækja að þeim sem þangað þora.

Komdu og skoðaðu í líkkistuna mína

Hver tekur á móti þér í kirkjugarðinum? Uppvakningur, draugur eða beinagrind? Það er ekki á allra færi að ganga í gegnum niðdimman kirkjugarð þar sem allra óvætta er von.

Göngin dimmu og djúpu

Neðanjarðar búa ýmsar kynjaskepnur sem fáir vilja mæta. Í göngunum djúpu og dimmu er betra að vera við öllu búinn því í myrkrinu mætir þú skríðandi kvikindum og skerandi ópi.

 

Dagskrá Vetrarhátíðar og Háskaleikanna

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd