Hvar er hægt að renna sér í snjónum?

Það er gaman að finna góða brekku að vetri til þar sem hægt er að renna sér niður á snjóþotu með góðum vinum. Brekkur eru víða og þarf í raun ekki skipulagt útivistarsvæði til að njóta lífsins í snjó.

Í Reykjavík eru þrjú almenn skíðasvæði; í Ártúnsbrekku við Rafstöðvarveg, við Jafnarsel í Breiðholti og við Dalhús í Grafarvogi. Þar má alveg fara með snjóþotur og snjóbretti líka.

Góðar byrjendabrekkur

Á vef Reykjavíkurborgar segir að brekkurnar þrjár eru mjög góðar byrjendabrekkur og áhugaverður valkostur fyrir fjölskyldur sem vilja eiga góða stund saman. Ekkert kostar í lyfturnar en þær eru opnar á virkum dögum frá kl. 16:10 til 20:00 og um helgar frá kl. 10:10 til 16:00, ef aðstæður leyfa.

Á Facebook-síðu Skíðasvæðanna í borginni má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um svæðin þrjú. Það er líka hægt að hringja í símsvara skíðasvæðanna í síma 878-5798.

Upplýsingar um Bláfjöll og Skálafell er að finna á vefslóðinni skidasvaedi.is. Á sömu síðu eru hlekkir á vefsíðu annarra skíðasvæða á landinu.

Snjóþotubrekka við Kringluna

Snjóþotur er hægt að nota í hvaða brekku sem er. Þetta þurfa ekki að vera hæstu brekkur í heimi. Dæld dugar vel til að renna sér niður á snjóþotu og má þær finna víða. Krummabrekka er við Heiðargerðið og fleiri slíkar um borg og bí.

Við gamla Moggahúsið við Kringluna (í næsta nágrenni við Borgarleikhúsið) þar sem nú er meðal annars Umboðsmaður barna er ágætis brekka. Brekkan sem myndin hér að ofan var tekin er á horni Listabrautar og Kringlumýrarbrautar. Brekkan er í rauninni dæld á stöllum sem mynduð er af hljóðmön og dæld niður að oggulitlu útivistarsvæði við húsið.

Þetta er tilvalið svæði fyrir bæði þau sem eru í nágrenninu og vilja ekki þurfa að fara langt til að finna skemmtilega brekku. Þar sem brekkan er í námunda við þungar umferðargötur er mikilvægt að fullorðnir eru með í för.

Þeir fullorðnu geta auðvitað tekið eina eða tvær ferðir á sterkbyggðri snjótþotu enda skiptir aldur þar engu máli. Það er nefnilega alltaf gaman að renna sér á snjóþotu.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd