Hver þekkir ekki manga teiknimyndir? Japanski manga-teiknarinn Chie Kutsuwada verður á Japanshátíð Háskóla Íslands í Veröld – Húsi Vigdísar, laugardaginn 26. janúar. Þar ætlar hún að teikna manga-myndir í fyrirlestrasal Veraldar klukkan 13:00. og veita áhugasömum leiðsögn um þetta listform.
Chie hefur gefið út margar Manga-bækur sem hafa verið þýddar á nokkur tungumál. Hún hefur líka kennt þetta listform við listaskóla og listaöfn víða um heim og unnið að verkefnum fyrir CNN og Channel 4 í Bretlandi.
Manga eru japanskar teiknimyndasögur sem urðu til eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar þegar japönsk stjórnvöld afléttu banni á útgáfustarfsemi sem ekki var tengd áróðri, að því er segir á Vísindavef Háskóla Íslands. Mikil menning hefur sprottið upp í kringum sögurnar í Japan sem síðan hefur dreifst út um nær alla heimsbyggðina.
Sushi og japönsk bardagalist
Á Japanshátíðinni í Veröld verður hJapanshátíðinni verður hægt að sjá margt tengt Japan. Þar á meðal er sushigerð, japönsk bardagalist (Aikido og Jiu-jitsu), skrautskrift, origami, hefðbundnir japanskir búningar og ýmislegt annað um Japan.
Fram kemur á vef Háskóla Íslands um hátíðina að þeir sem hafa áhuga á cosplay (það er að klæða sig upp í gervi uppáhalds teiknimyndapersónunnar sinnar) eru hvattir til að mæta í búningum. Veit eru verðlaun fyrir besta búninginn.
Það eru kennarar og nemendur í japönsku við Háskóla Íslands sem halda hátíðina í samstarfi við sendiráð Japans á Íslandi.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.