Sabína Steinunn: „Börn þekkja í dag orðið fleiri teiknimyndapersónur en heiti jurta“

„Börn þekkja í dag orðið fleiri teiknimyndapersónur en heiti jurta og það sem leynist í steinaríkin. Þau þekkja sífellt færri örnefni í kringum sig af því að þau verja minn tíma utandyra,“ segir íþrótta- og heilsufræðingurinn Sabína Steinunn Halldórsdóttir. Hún segir þessa þróun heita náttúruónæmi og er það áskapað. Reyndar bendir Sabína á að ósanngjarnt sé að taka börn út fyrir sviga því í rauninni séu maðurinn sem dýr farinn að verja æ minni tíma úti í náttúrunni. Þetta eigi því líka við um fullorðið fólk.

„Ég þekki dæmi um að fólk hefur skapað með sér náttúruónæmi,“ segir hún.

Sabína er heilmikið náttúrubarn. Hún er verkefnastjóri Hreyfiviku UMFÍ og stýrir fyrirtækinu Færni til framtíðar sem er hennar eigið hugðarefni. Hún hefur meðal annars skrifað samnefnda bók og Leikgleði – 50 leikir.

Náttúran góð fyrir alla

Sabína er fyrsti gestur Gunnars Hersveins, rithöfundar og heimspekings, í fyrsta heimspekikaffi vetrarsins í Gerðubergi sem fram fer í kvöld, miðvikudaginn 19. september. Umræðuefnið eru grunngildi fyrir börn, meðal annars um náttúruást, gildi útiveru á skynþroska barna og lífsgæði til frambúðar. Einni munu áhrif tækni og áðurnefnt náttúruónæmi bera á góma.

En hvernig kom það til að Sabína verður gestur í Heimspekikaffinu?

„Gunnar hafði samband við mig fyrir löngu síðan og þá varðandi að vera með erindi á ráðstefnu sem hann var að halda með borginni um græn svæði í borginni. Því miður átti ég ekki kost á því að vera með á þessari ráðstefnu en nú ætlum við að ræða um náttúruást og börnin,“ svarar Sabína.

 

Efniviður í náttúrunni

Hún segir náttúruna mikilvæga fyrir þroska barna og því mikilvægt að börn séu frekar úti en inni við leik.

„Náttúran og það að verja tíma úti í náttúrunni hefur áhrif á allan skynþroska barna, öll skynfærin. Börn og jú allir sem verja tíma úti fá áhrif á öll skynfærin okkar. Vissulega má vinna með skynþroska innandyra en við fáum meira og stærra áreiti út í náttúrunni. Við erum líka í lifandi umhverfi sem er síbreytilegt, jafnvel breytist það á þeim tíma sem við erum úti. Við tölum um fjórar árstíðir á Íslandi og það má deila um það hvað veður varðar en náttúran undirbýr sig fyrir hvert tímabil og sú breyting hefur áhrif á skynþroska barna. Lyktin breytist, litirnir breytast og það er efniviður í náttúrunni sem má borða á ákveðnum tímabilum sem hefur áhrif á bragðskyn og þar fram eftir götunum. Flestir nefna þessi fimm hefðbundnu skynfæri þ.e. sjónskyn, bragðskyn, lyktarskyn, snertiskyn og heyrnarskyn. Í raun eru það þrjú til viðbótar sem tengjast þá hreyfifærni enn sterkar og það er rúmskyn, jafnvægisskyn og vöðva- og liðamótaskyn. Síðast en ekki síst þá er náttúran okkar lifandi þrautabraut og örvar þar af leiðandi allan þroska barna,“ segir Sabína.

 

Heimspekikaffið er ókeypis og allir velkomnir. Það hefst klukkan 20:00 og lýkur klukkan 21:30.

Ítarlegri upplýsingar: Heimspekikaffi í Gerðubergi

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd