Skemmtilegt rathlaup í Heiðmörk

Í rathlaupi reynir á úthald og kunnátta við að lesa úr kortum. Allir aldurshópar geta tekið þátt í rathlaupum. MYND / Rathlaupafélagið Hekla.

Hafið þið heyrt um Rathlaupafélagið Heklu eða tekið þátt í rathlaupi?

Þetta er stórskemmtilegt félag fyrir fólk sem finnst gaman að fara í ratleiki – og hlaupa.

Rathlaupafélagið heldur skemmtilegan viðburð í Heiðmörk sunnudagsmorguninn 2. september. Þar verða brautir fyrir alla aldurshópa og styrkleika. Hægt að mæta hvenær sem er milli 10.00 og 12.00 á sunnudaginn í Furulund í Heiðmörk.

Staðsetningin er hér:
https://www.google.com/maps/@64.0685443,-21.735516,280m/data=!3m1!1e3

Hér eru ítarlegri upplýsingar um viðburðinn: Rathlaup í Heiðmörk

 

Börn og fullorðnir geta tekið þátt í rathlaupi. Rathlaupafélagið Hekla stendur fyrir páskaeggjarathlaupi í Nauthólsvík og Öskjuhlíð fyrir páska. MYND / Rathlaupafélagið Hekla

Hvað er þetta rathlaup?

Á flottri vefsíðu Rathlaupafélagsins Heklu segir að þetta er hlaupaíþrótt sem stunduð er á opnum svæðum bæði innan borgarmarka og utan. Íþróttin er þess vegna lík víðavangshlaupi.

Á vefsíðunni er líka að finna heilmiklar upplýsingar um rathlaup og hvernig á að byrja að taka þátt í rathlaupi.

Þátttakendur fá kort (oftast sérstakt rathlaupskort) af hlaupasvæðinu og þurfa að styðjast við það til að fara á milli stöðva sem merktar eru á kortið.

Hefðbundið rathlaup gerir ráð fyrir því að farið sé á milli stöðva í rathlaupi í fyrirfram ákveðinni röð.

Rathlaupið gerir miklar kröfur til hlaupara enda þarf hann að einbeita sér að því að rata rétta leið um leið og hann fer eins hratt og hægt er yfir svæði sem getur verið honum algjörlega ókunnugt. Það er af þessum sökum sem Bretar kalla rathlaup „hlaup hins hugsandi manns“.

Keppendur geta tekið þátt á ólíkum forsendum enda ekki nóg að vera fljótur að hlaupa heldur þarf að æfa rötun og kortalestur jafnóðum og þrek, úthald og tækni er æfð.

Rathlaup er fyrir alla og gjarnan stundað sem fjölskylduíþrótt. Stærri mót og keppnir bjóða keppendum að taka þátt í mörgum flokkum eftir aldri, kyni, áhuga og getu hvers og eins.

 

Hvað þarf að koma með?

Engan sérstakan búnað þarf til að stunda rathlaup en gott er að vera í góðum hlaupaskóm og léttum fötum til að hlaupa í.

Ekki þarf heldur sérstaka kunnáttu. Hægt er að læra allt sem þarf með því einu að taka þátt í hlaupi.

Einu leyfðu hjálpartækin eru áttaviti auk þess sem sumir hlaupa með sérstök gleraugu eða skyggni til að auðvelda sér lestur kortsins.

Ekki er leyfilegt að nota GPS tæki enda væri gagnið af slíku takmarkað.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd