Markús Már: Gaman að vinna með skapandi krökkum í ritsmiðjum

Markús Már Efraím

„Ritsmiðjurnar hafa gengið frábærlega. Það er alltaf gaman að fá að vinna með skapandi krökkum og veita þeim innblástur og leiðsögn,“ segir Markús Már Efraím. Hann stýrir ókeypis ritsmiðjum fyrir börn á aldrinum 8 – 12 ára í öllum útibúum Borgarbókasafnsins í Reykjavík næstu vikurnar fram til loka ágúst. Ritsmiðjurnar eru þrjá daga í senn og er tveimur þeirra lokið.

Í smiðjunum læra börnin eitt og annað í skapandi skrifum. Gerðar eru ýmsar ritunaræfingar. „Í lokin höfðu allir klárað eina smásögu sem þeir lásu fyrir foreldrana,“ segir Markús.

Það eru Sögur – samtök um barnamenningu, í samstarfi við Menntamálastofnun og Velferðarsjóð sem standa að ritsmiðjunum í öllum hverfum Reykjavíkur í sumar og haust. Ritsmiðjurnar eru þátttakendum að kostnaðarlausu. Að hverri ritsmiðju lokinni er blásið til pizzuveislu fyrir börnin og upplestri fyrir foreldra. Að auki fá allir þátttakendur bókagjöf.

Spönginni 25.- 27. júlí kl. 12-15

Gerðubergi 30. júlí – 1. ágúst kl. 12-15

Sólheimum 8.-10. ágúst, kl. 9-12

Ársafni 13. – 15. ágúst, kl. 12-15

Kringlunni 23. – 25. ágúst, kl. 14:30-17:30 (12-15 á laugardeginum)

Grófinni í september (nánari tímasetningar síðar)

Takmarkað pláss er á smiðjurnar svo það er nauðsynlegt að skrá sig með því að senda tölvupóst á netfangið markusmefraim@gmail.com með eftirfarandi upplýsingum:

Nafni og aldri barns, símanúmer forráðamanns og hvaða smiðju barnið óskar eftir að sækja (þ.e. í hvaða safni). Hver smiðja stendur yfir í þrjá daga og gert er ráð fyrir að þátttakendur mæti alla þrjá dagana.

 

Kennir börnum að njóta hryllings

Það er nánast óþarfi að kynna Markús fyrir lesendum Úllendúllen. Hann hefur margoft verið í viðtali hjá okkur og hefur margra ára reynslu af því að vinna með börnum. Hann hefur m.a. staðið fyrir ritsmiðjum frístundaheimilum, skólum, bókasöfnum og listasöfnum undanfarin ár. Hann er formaður Sagna – samtaka um barnamenningu – sem stóðu að Sögu verkefninu í vetur í samstarfi við KrakkaRÚV, Menntamálastofnun og fleiri.

Markús hefur hlotið hvatningarverðlaun Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, hvatningarverðlaun skólanefndar Kópavogs og hvatningarverðlaun Heimilis og skóla fyrir starf sitt með börnum. Hann gaf einnig út bókina Eitthvað illt á leiðinni er með hryllingssögum eftir 8-10 ára nemendur sína og hlaut bókin m.a. tvær tilnefningar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur.

Markús sagði eftir eina smiðju eins og þá sem hann stýrir:

„Ég vona að flestir þátttakendur haldi áfram að skrifa eftir smiðjuna, vinni áfram með þær sögu sem þau byrja á og hugsið dálítið öðruvísi um skapandi skrif og lestur eftir hana.“ Von hans var sú að geta kennt börnunum að hræða líftóruna úr fjölskyldu, vinum og nágrönnum með hryllilegum sögum.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd