Ekki láta rigninguna og rokið stoppa ykkur

Sólin hefur heldur betur verið að stríða fjölskyldum á Suðurlandi og suðvesturhorni landsins í sumar. Þær fjölskyldur sem finnst rigningin góð láta það nú samt ekki aftra sér enda nóg um að vera fyrir alla sem finnst gaman að leika sér úti.

Helgarspáin fyrir landið allt er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Spáin er reyndar arfaslæm fyrir suðausturhluta landsins og því um að gera að halda sig inn og leika – nú eða fara á flakk um landið.

Fylgist með veðurspánni á vedur.is

Það er nóg um að vera víða um land um helgina. Franskir dagar eru á Fáskrúðsfirði, Trilludagar á Siglufirði og Mærudagar á Húsavík. Í Kópavogi býður listahópurinn Endur hugsa fjölskyldum upp á að læra ýmislegt um ræktun og allskonar umhverfislausnir.

Á sunnudaginn er svo mikið um að vera í borginni. Þá verður hátíðin Kátt á Klambra haldin í þriðja sinn. Það verður líka fjör í Viðey en þar ætla þær Brynhildur Björnsdóttir og Krístín Eva Þórhallsdóttir að bralla eitthvað skemmtilegt með fólkinu af fasta landinu.

 

Þetta höfum við tínt inn í viðburðadagatal ullendullen.is

  • Mærudagar á Húsavík. Þar verður margt skemmtilegt um að vera. Leikhópurinn Lotta kemur fram og margt fleira: Mærudagar á Húsavík
  • Bæjarhátíðin Franskir dagar er haldin á Fáskrúðsfirði um helgina. Margt er í boði á meðan hátíðinni stendur. Leikhópurinn Lotta kemur fram, brenna með bæjarbúum á föstudeginum og búningahlaup fyrir börn á öllum aldri á laugardeginum: Franskir dagar
  • Mikið er í boði á bæjarhátíðinni Trilludagar á Siglufirði. Þar er margt fyrir alla fjölskylduna. Frítt er á sjóstöng og siglingar út á fjörðinn, aflinn sem veiðist á sjóstöng er grillaður, hoppukastalar verða settir upp og Sirkus Ísland kíkir í bæinn: Trilludagar
  • Listahópurinn Endur hugsa býður fjölskyldum í gróðurhúsið Geislahvelfinguna á útisvæði Menningarhúsanna laugardaginn 28. júlí á milli klukkan 13:00 – 15:00. Þar geta fjölskyldur aðstoðað við ræktun ásamt því að taka þátt í samtali um leiðir til betri umhverfislausna: Fjölskyldan hugsar í lausnum
  • Barnahátíðin Kátt á Klambra verður haldin sunnudaginn 29. júlí á Klambratúni á milli klukkan 11:00 – 18:00.  Þetta er afslöppuð og notaleg hátíð með fjölbreyttri afþreyingu og skemmtilegri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Meðal viðburða verður sirkuskennsla, beatboxkennsla og Emmsjé Gauti stígur á stokk: Kátt á Klambra
  • Sunnudaginn 29. júlí á milli klukkan 13:00 – 15:00 ætla þær Brynhildur Björnsdóttir og Kristín Eva Þórhallsdóttir að taka á móti börnum og fjölskyldum þeirra í Viðey. Þar verður hægt að brasa ýmislegt skemmtilegt í fallegri náttúru eyjarinnar: Brallað í Viðey 

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd