Atli Fannar: Las Andrésblöð og Bert í æsku – stýrir ráðstefnu um barnabækur

Eru barna- og unglingabækur í takt við tímann eða eru þær uppfullar af stöðnuðum staðalmyndum?

Þessum spurningum og fleiri verður pælt í á árlegri ráðstefnu Borgarbókasafnsins og fleiri um barna- og unglingabækur  sem verður haldin í 21. skipti í Gerðubergi  laugardaginn 3. mars á milli klukkan 10:30 og 13:30.

Fjölmiðlamaðurinn Atli Fannar Bjarkason, ritstjóri og stofnandi Nútímans, er fundarstjóri á ráðstefnunni á laugardag.

Auðvitað er gaman að vita hvað Atli Fannar las þegar hann var yngri.

Las Andrésblöð og Æskuna

Lásu foreldrar þínir fyrir þig í æsku?

„Ég verð að viðurkenna að ég man það ekki. Bækur voru ekkert sérstaklega stór hluti af æsku minni. Ég var meira fyrir að teikna en lesa. Sá áhugi þróaðist út í að lesa Andrésblöðin og svo magnaða fjölmiðla á borð við ABC og Æskuna. Ég átti alltaf nóg af bókum en nennti því miður ekki að lesa þær allar. Kann engar skýringar á þessu en þetta hefur orðið til þess að ég er ekki mikill bókaormur í dag. Vona að sonur minn verði duglegri en ég.“

En hverjar voru uppáhalds bækurnar þínar í æsku og á unglingsárum?

„Ég fékk alltaf nýjustu bókina um Bert í jólagjöf. Kláraði hana svo á aðfangadagskvöld og leit svo á að lestri ársins væri lokið. Fyrir utan skólabækurnar og Andrésblöðin. Á unglingsárunum var ég svo farinn að lesa dagblöð upp til agna og gat ekki án DV og Moggans verið. En það eru svo sem ekki bækur.“

Hvað finnst þér um ráðstefnu eins og Í hvaða bók á ég heima?

„Gott mál. Mér finnst sniðugt og nauðsynlegt að rýna í hvað börnin eru að lesa og hvort það sé í takt við tímann. Það er sérstaklega áhugavert að skoða birtingamyndir kynhlutverka í þessu samhengi sem eru eflaust ansi bogin í mörgum eldri bókum. Það gefur svo prýðisgott tilefni til að eiga samtöl um þessi hlutverki og þróun þeirra við börnin.“

 

Enid Blyton og forsetafrúin í Gerðubergi

Ráðstefnan Í hvaða bók á ég heima er haldin í Borgarbókasafni í Gerðubergi. Þar verður sjónum einkum beint að því hvort raunveruleiki barnabóka er annar en raunverulegur raunveruleiki. Birtingarmyndir kynja og kynhlutverka verða skoðaðar og rætt hvort barnabækur eru í takt við tímann eða hvort þar megi enn finna staðnaðar staðalmyndir.

Ráðstefnan er opin öllu áhugafólki um íslenskar barna- og unglingabækur. Í lok ráðstefnunnar verður svo tilkynnt hvaða bækur eru tilnefndar til barnabókmenntaverðlauna Reykjavíkurborgar.

Þessi eru með erindi:

Eliza Reid forsetafrú ávarpar ráðstefnugesti og opnar ráðstefnuna.

Árni Matthíasson blaðamaður, tónlistarspekúlant og tæknitröll á Morgunblaðinu: Doddi í rasistalandi – Það sem Enid Blyton kenndi mér. Árni rifjar upp heiminn sem birtist í barnabókum æsku hans og veltir því fyrir sér hvort og þá hvernig heimsmynd bókanna mótaði afstöðu hans til lífsins.

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra jafnréttismála hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar: Háværir strákar og sætar stelpur. Hvaða áhrif hefur dægurmenning á sjálfsmynd og samskipti kynjanna? Er fjölbreytileikinn að verða sýnilegri eða eru staðalmyndir enn ráðandi víða í bókmenntum barna- og unglinga í dag?

Ásta Rún Valgerðardóttir, sálfræðingur. Mamma, pabbi börn og bíll! Hvaða fjölskylduform birtast börnum í bókum? Endurspegla þau almennt samfélagið eða væri mögulega hægt að komast nær þeim raunveruleika sem börn og unglingar þekkja í dag?

Erlingur Sigvaldason, nemi: Barna- og unglingabækur frá sjónarhorni hinsegin unglinga.

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd