Forsætisráðherra stýrir leiðsögn um galdra og glæpi á Þjóðminjasafninu í vetrarfríinu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er sérfræðingur í glæpum. MYND / Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafn Íslands bryddar upp á miklum skemmtilegheitum í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli landsins á þessu ári. Þá munu valinkunnir einstaklingar, sem þekktir eru fyrir störf sín í þágu samfélagsins, stýra leiðsögn um sýningar og ræða við gesti safnsins um hugðarefni sín.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ríður á vaðið á Þjóðminjasafninu sunnudaginn 18. febrúar klukkan 14:00. Katrín er auðvitað störfum hlaðin og er gert ráð fyrir að leiðsögnin taki aðeins 45 mínútur. Yfirskriftin á leiðsögn Katrínar er Galdrar, glæpir og glæfrakvendi.

Katrín er sem kunnugt er ekki aðeins þingmaður og formaður VG heldur líka sérfræðingur í glæpasögum. Lokaritgerð hennar í MA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands árið 2004 fjallaði einmitt um Arnald Indriðason glæpasagnahöfund og hefur Katrín fjallað oftsinnis um glæpi og glæpasagnir.

Ekki er búið að greina frá því hvaða aðrir einstaklingar stýri leiðsögn um ganga safnsins á þessari glæsilegu hátíðardagskrá Þjóðminjasafnsins í tilefni af aldarafmæli fullveldisins. Það verður gert mjög fljótlega, samkvæmt upplýsingum frá Þjóðminjasafninu.

Allir eru velkominir á safnið og kostar ekkert inn fyrir gesti leiðsagnarinnar.

 

Upphaflega stóð til að forsætisráðherra leiddi leiðsögnina sunnudaginn 11. febrúar. Viðburðinum var frestað vegna veðurs um eina viku.

Ítarlegri upplýsingar: Þjóðminjasafnið

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd