Heimsdagur barna 2018: Ævintýralegur heimur á Borgarbókasafninu

Borgarbókasafn Reykjavíkur heldur upp á Heimsdag barna með heljarinnar húllumhæi laugardaginn 3. febrúar. Í tilefni af því gefst börnum og fjölskyldum tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttum smiðjum og ævintýrum í öllum Menningarhúsum Borgarbókasafnsins í Reykjavík.

Viðburðirnir standa frá klukkan 13:00 – 16:00 í öllum bókasöfnunum í Árbæ, Gerðubergi, Grófinni, Kringlunni, Sólheimum og Spönginni.

Í ár hafa myrkraverur tekið yfir söfnin; draugar, nornir, beinagrindur, skrímsli og uppvakningar. Þorir þú að kíkja í heimsókn?

Boðið verður upp á búningasmiðjur, föndursmiðjur, tónlistarsmiðju, slímgerð, getraunir og æsispennandi Háskaleika.

Hólmfríður Ólafsdóttir er ein af þeim sem stýrir viðburðunum á Borgarbókasafninu. Henni finnst gaman að láta hugmynda verða að veruleika í rökkrinu og hlakkar til Heimsdags barna.

Viðtal við Hólmfríði

 

Gerðuberg: 

 • Gestir geta búið til sína eigin beinagrind og dansað með henni  í drungalegu skuggaleikhúsi.
 • Leynast draugar meðal okkar? Móri, Kasper, Djákninn á Myrká eða Næstum-hauslausi Nick? Í draugasmiðjunni bregða gestir sér í draugabúninga, bregða á leik og bregða fullorðnum.
 • Búningamátun og búningar jarðarfólksins. Jarðarfólkið eru verndarar jarðarinnar og gæta hennar eftir fremsta megni.
 • Hlæjandi nornir, svífandi draugar og  skoppandi galdrakarlar koma í heimsókn frá Sirkus Íslands og sýna listir sínar fyrir gesti og gangandi.
 • Hvað vilja börnin verða þegar þau verða stór? Norn, vampíra, varúlfur eða kónguló? Gestir Borgarbókasafnsins í Gerðubergi geta fengið andlitsmálningu sem fær alla til þess að óttast þá.
 • Getraun á bókasafninu.
 • Gestir bókasafnsins fá að búa til sitt eigið tónverk með ógnvekjandi hljóðum sem fá hárin til að rísa. Síðan slá þeir í gegn sem öðruvísi Björk og Beyoncé – eða öðruvísi Bubbi.

Kringlan:

 • Hver kemur frá Transylvaníu, sefur í líkkistu og finnst gott að drekka blóð? Drakúlasmiðja fyrir þá sem eru með blóðþyrstar og beittar tennur.
 • Spiladýflissa og hlutverkaspil að hætti Seiðkarls.
 • Hægt verður að taka þátt í ógnarlegri getraun á bókasafninu.

Sólheimar: 

 • Í Sólheimum hafa undarleg skrímsli sest að. Gestir safnsins geta teiknað þessi skrýtnu skrímsli og prófaðu að blanda sinn eigin skrímslahor.

Árbær:

 • Óhugnaðurinn mun svífa yfir vötnum í Árbæ en þar verður hægt að búa til sitt eigið draugaslím sem lýsir í myrkri. Hver getur búið til hræðilegasta slímið.
 • Boðið er upp á kóngulóarsnarl og galdraseyði að drekka.

Grófin:

 • Í myrkrinu leynast margar kynjaverur og vættir sem vakna til lífsins. Þær fundið sér íverustað  í Grófarhúsi og fara á kreik þegar dimma tekur og leynast í skúmaskotum á öllum hæðum. Kjarkmiklum krökkum er boðið að koma og taka þátt í háskaleikunum og fara um húsið og takast á við voðalegar áskoranir.

Spöngin:

 • Uppvakningar herja á Grafarvog. Hvernig er hægt að stoppa þá? Hvað er til ráða? Gestir Borgarbókasafnsins geta  búið til sinn eigin uppvakningaher í Spönginni.
 • Ógnvekjandi andlitsförðun svo enginn þorir að mæta manni í myrkrinu.
 • Seiðkarlar og nornir frá Sirkus Íslands koma í heimsókn og kenna alls kyns kúnstir og galdrabrögð.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd