„Þetta er eitt af því skemmtilegasta sem fjölskyldan gerir fyrir jólin. Það skemmtilega er að allir eru saman, ungir og gamli hafa jafn gaman að þessu,“ segir Margrét Sigfúsdóttir, skólastýra Hússtjórnarskólans í Reykjavík.
Margrét mun á vegum Borgarsögusafns Reykjavíkur kenna fólki kúnstina við að skera út laufabrauð og steikja í Viðey sunnudaginn 26. nóvember. Allir sem koma út í Viðey geta farið heim með tilbúin laufabrauð sem líta má á sem gómsæt listaverk í öskjum.
Margrét er þekkt fyrir góð ráð um eitt og annað sem snýr að heimilinu. Sjálf kynntist hún laufabrauðagerð þegar hún fór í Hússtjórnarskólann og síðar í kennaranám.
Margrét hefur ótal sinnum farið út í Viðey til að kenna fólki að skera út og steikja laufabrauð og hefur ekki tölu á ferðunum. Hún segir laufabrauðagerðina ekkert hafa breyst frá því sem áður var, hún sé alltaf jafn skemmtileg.
Hvað veistu um laufabrauð? Úllendúllen fjallar um sögu laufabrauða.
Hægt verður að kaupa laufabrauð í Viðey og kosta 10 stykki í öskju 2.000 krónur. Gestir eru hvattir til þess að taka með sér laufabrauðsjárn og hnífa til útskurðar en einhver áhöld verða einnig á staðnum.
Í Viðeyjarstofu verður líka hægt að kaupa gómsætar veitingar við allra hæfi og svo er alveg viðbúið að jólasveinn kíki í heimsókn.
Óskað er eftir því að áhugasamir skrái sig á netfanginu videyjarstofa@videyjarstofa.is.
Til að fara út í Viðey er farið með ferju frá Skarfabakka klukkan 13:15, 14:15 og 15:15.
Ferjukostnaður: Fullorðnir 16 ára og eldri: 1.500 kr. Börn 7-15 ára 750 kr. Eldri borgarar og öryrkjar 1.350 kr.