Róbert Aron: Ungmenni nenna ekki að lesa vondar bækur

„Það er alltaf verið að segja að unglingsstrákar lesi of  lítið en af hverju  eru þá aðeins örfáar bækur fyrir unglingsstráka sem teljast gott lesefni?“

Þessari spurningu varpaði Róbert Aron Garðsson Proppé fram í aðsendri grein til Vísis.is rétt fyrir jólin í fyrra. Athygli vakti að Róbert er 13 ára nemandi í 7. bekk grunnskóla.

Í greininni sagði Róbert frá að hann hafi flett Bókatíðindum í leik að góðu lesefni um jólin.

 

Fáar bækur fyrir ungmenni

Róbert varð fyrir vonbrigðum þegar hann fletti í gegnum Bókatíðindin:

„Ég fletti lengi í von um að sjá nokkrar opnur með góðum og skemmtilegum ungmennabókum sem mig langaði að lesa. En ég varð fyrir vonbrigðum. Þarna blasti við mér ein lítil opna með aðeins 19 bókum. Ég hugsaði með mér: Voðalega eru fáar bækur gefnar út í ár. Svo hélt ég áfram að fletta og varð virkilega hissa. Ég sá að íslensk skáldverk fyrir fullorðna voru á rúmlega 9 síðum.“

Róbert skrifar í greininni að sér finnist gaman að lesa bækur ýmist fyrir eða um unglinga. En úrvalið sé ekki nógu mikið.

Hann gaf heldur ekki mikið fyrir átak í lestri enda fátt í boði, að hans mati, til að hvetja hann til lesturs.

„Í skólunum eru stöðugt haldin lestrarátök og í vetur hafa allir verið í átakinu Það er gott að lesa. Eða…það áttu allir að vera í því en voru það fæstir. Lestrarátök gera ekki neitt nema við, sérstaklega unglingsstrákar, fáum góðar skrifaðar sögur fyrir okkur. Hvað eigum við að lesa? Hvað eigum við að gera? Skrifa okkar bækur sjálf?

 

Ungmenni á bókaráðstefnu

Róbert verður með erindi á árlegu barna- og unglingabókaráðstefnunni sem haldin verður í Menningarhúsinu Gerðubergi laugardaginn 11. mars á milli klukkan 10:30 – 13:30.

Yfirskrift ráðstefnunnar þetta árið er:

Hvað er hún margar blaðsíður? #unglingarlesa.

Í ár verður sjónum einkum beint að lestri unglinga.

Dagskrá ráðstefnunnar er eftirfarandi:

  • Róbert Aron Garðarsson Proppé, unglingur: Hvað viljum við lesa?
  • Auður Albertsdóttir, blaðamaður og bókmenntafræðingur: SKAM og samfélagsmiðlar – markaðsfræðilegt meistaraverk. Norski unglingaþátturinn SKAM fer eins og eldur í sinu um heimsbyggðina. Fjallað verður um hvernig SKAM notar samfélagsmiðla sem frásagnartækni og hvað varðar samband áhorfenda við persónur. Geta rithöfundar lært af leikstjóra SKAM?
  • Þórhildur Garðarsdóttir, fjármálastjóri Forlagsins: Lestrarhvetjandi verkefni – bókin frá öllum hliðum. Þórhildur hefur staðið fyrir lestrarhvetjandi verkefnum með sjöundubekkingum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem allir nemendur leggja sitt af mörkum við að skrifa bók.
  • Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur: Barnabækur og ábyrgð stjórnvalda – hver er staðan?  Aldrei áður hafa barnabækur verið í eins harðri samkeppni við aðra afþreyingu og nú. Barnabókahöfundar og útgefendur keppast við að koma flottum bókum á markað þótt allir viti að útgáfa barnabóka á örtungumáli standi sjaldnast undir sér. Hver er ábyrgð stjórnvalda er kemur að barnabókum og lestri?
  • Bryndís Björgvinsdóttir, rithöfundur: Að skrifa fyrir unglinga – að skrifa með unglingum. Hvað er ólíkt með að skrifa fyrir unglinga og þá sem eldri eru? Bryndís ræðir og rabbar um „unglinginn“ og það að skrifa um unglinga fyrir unglinga, og það að skrifa um unglinga með unglingum.

Fundarstjóri: Ævar Þór Benediktsson

Gert verður hádegishlé frá 12 – 12.30 og geta gestir keypt veitingar hjá Cocina Rodríguez í Gerðubergi.

Allir velkomnir. Enginn aðgangseyrir.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd