Hvernig er jólatréð hjá ykkur?

Jólatré í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Jólatré í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Manstu eftir jólatrénu sem mamma og pabbi settu upp þegar þú varst lítill eða lítil?

Flestir muna eftir jólatrjánum úr æsku og þess vegna er mikilvægt fyrir foreldrana að hugsa vel um hverju ætlunin er að skella upp í stofunni fyrir jólin. Jólatréð bara má ekki vera vanhugsað.

Mörgum finnst gaman að rifja upp hvernig jólin voru á árum áður. Á Árbæjarsafni er til dæmis hægt að ganga á milli gömlu húsanna á sunnudögum og skoða hvernig jólin voru þegar langalangafi og langalangamma voru til og langafi og langaamma voru lítil.

Aðventujólin á Árbæjarsafni

Svona eru jólin hugguleg í einu af gömlu húsunum á Árbæjarsafni.

Svona eru jólin hugguleg í einu af gömlu húsunum á Árbæjarsafni.

Í Safnahúsinu við Hverfisgötu er sýning á jólatrjám frá því snemma á 20. öld og fram undir 1970. Sýningin stendur yfir í allan desember og fram á þrettándann.

Trén á sýningunni eru úr safneign Þjóðminjasafnsins og hafa undanfarin ár verið til sýnis fyrir jólin. Nú skreyta þau glæsilegan lestrarsal Safnahússins við Hverfisgötu.

Safnahúsið við Hverfisgötu er hluti af Þjóðminjasafninu.

Á vef Þjóðminjasafnsins segir um jólatré á Íslandi:

Fyrstu jólatrén bárust til Norðurlanda laust eftir 1800 og náði hefðin einna fyrst rótfestu í Kaupmannahöfn. Eftir miðja öldina tók hún að breiðast út til annarra staða, en þó var jólatréð ekki sjálfsagður hlutur í hvers manns húsi fyrr en eftir aldamótin 1900.

Fyrstu heimildir um jólatré á Íslandi eru frá miðri 19. öld. Þau munu fyrst hafa sést hjá dönskum kaupmönnum og íslenskum embættismönnum sem höfðu kynnst þessum sið í Kaupmannahöfn. Á síðustu áratugum 19. aldar fjölgaði jólatrjám meðal hinna efnameiri og fyrir aldamótin 1900 má sjá jólatré og jólatrésskraut auglýst í verslunum.

Fyrstu íslensku jólatrén voru gjarnan búin til úr spýtum, því grenitré uxu ekki villt á Íslandi og skipaferðir gátu tekið það langan tíma á þessum tíma árs, að innflutt grenitré voru oft búin að missa mikið af barrinu þegar komið var til Íslands.

Heimatilbúin jólatré voru algengust meðal almennings fram undir miðja 20. öldina. Eitthvað var flutt inn af lifandi jólatrjám eftir 1920, en sá innflutningur datt að mestu niður á kreppuárunum og hófst ekki aftur að ráði fyrr en eftir síðari heimsstyrjöld. Upp úr 1970 fóru íslensk grenitré að koma á markað og anna nú æ stærri hluta af eftirspurninni. Gervitré hafa sótt á, því mörgum finnst þrifalegra við þau að eiga en grenitré.

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd