Jólabarnið Bergrún: Þeytist um á aðventunni og fer í sund á aðfangadag

 

Bergrún er hér með rithöfundinum Stefáni Mána, sem hún kallar myrkrahöfðingja.

Bergrún er hér með rithöfundinum Stefáni Mána, sem hún kallar myrkrahöfðingja.

Myndlistarmaðurinn og rithöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir er oftast á heilmiklum þeytingi um aðventuna vegna vinnu sinnar. Hoppar og skoppar til útlanda rétt fyrir jól og heim aftur til fjölskyldunnar til að ná jólasundinu.

Í fyrra fór hún til Tenerife til að slaka á kortéri í jól.

Bergrún skilur börn sem geta ekki beðið eftir því opna pakkana sem bíða undir jólatrénu enda myndi hún sjálf opna pakka strax að morgni aðfangadags.

Þeytingurinn á Bergrúnu skýrist af starfi hennar. Jólin eru vertíð rithöfunda og þar er hún oftar en ekki með stórútgerð, stundum með eina, tvær eða fleiri bækur sem þarf að selja. Um þessi jól tengist Bergrún þremur bókum.

Bergrún hefur haft í nægu að snúast í Prag í Tékklandi síðastliðnar sex vikurnar.

Bergrún hefur haft í nægu að snúast í Prag í Tékklandi síðastliðnar sex vikurnar.

Það eru bækurnar Búðarferðin, prinsessubók sem hún vann með rithöfundinum Stefáni Mána og Besta bílabókin, sem í raun er svo miklu meira en bók. Hún er nefnilega líka leikfang.

En hvað segir Bergrún?

Hvað fannst þér gaman að gera á jólunum þegar þú varst lítil?

„Skemmtilegast fannst mér að vera með fjölskyldunni, hitta frændsystkini mín í jólaboðum og gefa og þiggja gjafir. Þegar ég var unglingur vann ég með ömmu minni í eldhúsi Sjálfsbjargarheimilisins og upplifði að borða jólamatin með heimilisfólkinu á aðfangadag. Mér þykir alltaf sérstaklega vænt um þau jól.“

 

Smelltu og sjáðu hvernig Besta bílabókin lítur út

Hvað finnst þér gaman að gera á aðventunni og jólunum í dag?

„Jólin mín snúast fyrst og fremst um samveru fjölskyldunnar, góðan mat og falleg jólaljós. Við reynum að halda nokuð afslöppuð jól svo öllum líði vel.“

 

Kemstu einhvern tíma í jólaskap?

„Ég á það til að vera í mikilli vinnutörn á aðventunni og það er oft ansi mikið um að vera og erfitt að slaka og njóta. Á aðfangadagsmorgun verð ég hinsvegar alltaf aftur 4 ára, með tilheyrandi flissi og eftirvæntingu. Ég á mjög erfitt með að hemja mig þegar kemur að pakkaopnun og hef nú yfirfært þessa jólagleði yfir á börnin mín. Mér finnst þeir verði helst að fá pakka strax um morguninn, fyrir mat og eftir og skil ekki þá áráttu að láta alla borða í rólegheitunum á meðan pakkarnir bíða.“

Eftir upplestur á vegum bókmenntaborgarinnar Prag í jólamánuðinum.

Eftir upplestur á vegum bókmenntaborgarinnar Prag í jólamánuðinum.

Með hverju mælirðu fyrir fjölskylduna um jólin?

„Við hjónin og drengirnir erum með skemmtilega fjölskylduhefð en við förum alltaf í sund á aðfangadagsmorgunn. Það er frábær leið til að afgreiða jólabaðið, slaka vel á og hleypa út eitthvað af orkunni í upphafi dags.“

 

Hefurðu verið i öðrum löndum um jól – hvernig var það?

„Aldrei yfir sjálf jólin en oft á aðventunni. Ég hef varið aðventunni í Kaupmannahöfn, á Tenerife og núna í Prag. Hinsvegar er voða gott að koma heim yfir sjálf jólin.“

Besta bílabókin er engin venjuleg bók!

Besta bílabókin er engin venjuleg bók!

Hvað gerirðu um jólin núna?

„Við strákarnir ætlum að elda góðan mat og halda jólin heima í Hafnarfirðinum okkar fagra. Ég tel niður dagana enda hef ég varið síðustu sex vikum í Tékklandi og farið að lengja eftir fjölskyldunni. Hér hef ég verið í rithöfundagestadvöl og tókst að ljúka skrifum á fyrstu kaflabókinni minni sem kemur út á næsta ári!

Um leið og ég kem heim þarf ég að taka góðan slurk í að kynna bækurnar mínar sem koma út núna fyrir jólin. Búðarferðina gerði ég með Ósk Ólafsdóttur og svo myndskreytti ég prinsessubókina hans Stefáns Mána, Hin æruverðuga og ættgöfuga hefðarprinsessa, fröken Lovísa Perlufesti Blómasdóttir.

Svo er ég ofsalega stolt af og spennt fyrir Bestu bílabókinni minni! Hún er harðspjaldabók í harmonikkuformi, og er bæði bók, bílabraut og púsl! Klárlega jólagjöfin í ár fyrir krílin okkar.“

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd