Úllendúllen og Salka: Börnin skrifa um bækur fyrir börn

img_5520Úllendúllen og bókaútgáfan Salka hafa tekið höndum saman í nýstárlegri umfjöllun um barnabækur fyrir jólin. Hugmyndin er að börn lesi bækur og gagnrýni þær fyrir jafnaldra sína.

Alla jafna hefur opinber gagnrýni bóka verið í höndum fullorðna fólksins og það má segja að umfjöllun um barnabækur hafi nánast ávallt verið af skornum skammti. Þetta er liður í að brúa það bil og við erum mjög spennt fyrir verkefninu enda hljóta börn að vera best til þess fallin að fjalla um barnabækur!

Umfjöllunin birtist á Úllendúllen í hinum ýmsu myndum, allt eftir aldri barnanna, og getur verið í formi myndbands eða texta. Við erum öll óskaplega spennt fyrir þessu skemmtilega samstarfi.

Hjá Sölku starfa þær Dögg Hjaltalín og Anna Lea Friðriksdóttir.

Hvað segir Dögg?

„Barnabækur eru gefnar út fyrir börn og því erum við spenntar að sjá hvað börnin sjálf segja um þær. Við erum að sjálfsögðu mjög ánægðar með þær bækur sem við höfum valið til útgáfu eins og gefur að skilja. Svo er bara að sjá hvort börnin séu sammála okkur. Við búumst fastlega við því að fá nýja og ferska sýn á bækurnar eftir umfjöllun barnanna.“

Hvað segir Anna Lea?

„Við erum fullar tilhlökkunar og erum satt best að segja mjög ánægðar með þessa fínu hugmynd! Að sama skapi erum við dálítið taugaóstyrkar, eins og bókaútgefendum sæmir þegar útgefin verk þeirra eru til umfjöllunar, enda eru börn dásamlega hreinskilin.“

Gefa út helling af barnabókum

Bókaútgáfan Salka var stofnuð vorið 2000 og hefur alltaf lagt áherslu á útgáfu bóka eftir konur. Útgáfulisti Sölku er fjölbreyttur en á honum eru meðal annars handbækur um veiði, matreiðslu, hannyrðir og ferðalög. Hjá Sölku koma líka út skáldsögur, bæði íslenskar og þýddar og ævisögur. Og svo að sjálfsögðu mál málanna, barnabækur.

Fjöldi nýrra barnabóka er að koma út undir merkjum Sölku þessa dagana. Þar á meðal er Rúnar góði eftir Hönnu Borg Jónsdóttur og bækurnar um Snuðru og Tuðru eftir Iðunni Steinsdóttur með teikningum Lóu Hjálmtýsdóttur.

Nú er  bara að fylgjast með og sjá hvað börnin segja um bækurnar.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd