Andri ætlar að verða atvinnumaður í frisbígolfi

Frisbígolf

Andri Fannar Torfason er 10 ára frisbígolfari. Hann varð í byrjun september Íslandsmeistari í frisbígolfi yngri en 16 ára. Hann hefur æft frisbígolf í rúmt ár og ætlar að verða atvinnumaður í frisbígolfi.

Viðtal var við Andra Fannar í helgarblaði Morgunblaðsins fyrir skemmstu.

Íslandsmeistaramótið í frisbígolfi fór fram á vellinum í Fossvoginum. Völlurinn þar er 9 holur og varð að fara tvo hringi til að ná 18 holum. Andri hefur keppt á fleiri mótum og gengið vel.

Fram kemur í viðtalinu að erlendis séu 18 holu frisbígolfvellir algengir. Hér á landi sé aðeins einn, í Gufunesi. Hinir eru 9 holur eins og í Fossvoginum.

Frisbígolfvöllum hefur fjölgað mikið hér á landi síðustu árin og eru þeir orðnir 30 talsins.

 

Horfir á meistarana á YouTube

FrisbígolfAndri Fannar segir ekki boðið upp á reglulegar æfingar í frisbígolfi. Hann verði því sjálfur að sjá um æfingar sínar. Hann horfir á meistarana spila á YouTube auk þess að æfa sig mikið á hverjum degi, allt upp undir sex klukkustundir á dag. Allt fari það þó eftir veðri hverju sinni.

Stundum æfir hann með strákunum úr hverfinu sem hann býr í í Reykjavík en pabbi hans fer líka oft með honum. Pabbi hans er reyndar oftast töskuberi en spilar líka stundum með honum.

Andri Fannar spilar mikið á Vífilstaðatúni en uppáhaldsvellirnir eru í Laugardalnum, í Gufunesi og á Úlfljótsvatni. Þessir þrír vellir sem hann nefnir síðasta eru erfiðir en krefjandi.

En hvernig er þetta frisbígolf?

Parið á hverri holu er oftast 3 en getur farið upp í 4-5 köst ef langt er í holurnar.

Velja réttu diskana

Þetta er ekki dýrt sport. Samt verður að velja réttu diskana því venjulegir diskar geta fokið út í veður og vind. Andri Fannar á ágætis byrjendasett, sem er með pútter, dræver og miðlungsdiski. Hann segir hægt að kaupa diska með misjöfnum hraða og þykkt, sem sé fyrir lengra komna. Andri Fannar á marga diska, einhverja tugi eins og hann segir sjálfur.

Þrátt fyrir að eiga marga og góða diska segist Andri Fannar ekki allt ganga alltaf upp. Hann hafi kastað diskum mörgum sinnum út í tjörnina í Fossvoginum. Annað hvort vaði hann út í tjörnina til að ná í diskinn sem þangað ratar eða sæki hann með sérstakri klemmu sem hann er oft með.

Hann hefur líka ótal sinnum þurft að klifra upp í tré til að sækja diska.

 

 

Viltu vita meira um frisbígolf?

Við höfum fjallað um íþróttina

Frisbígolfvöllurinn á Flúðum

Heimasíða Íslenska frisbígolfsambandsins

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd