Börnin læra að taka slátur og borða lambagúrmei á Kex Hostel

Kex Hostel

„Það eru margir af minni kynslóð sem hafa aldrei tekið slátur. Það skiptir máli að þessari þekkingu sé haldið við. Eitthvað segir mér að við munum sjá eftir því að glutra þessu niður ef svo fer. Þetta er svona okkar leið til að vinna gegn því,“ segir Böðvar Guðjónsson, viðburðastjóri hjá Kex Hosteli.

Fyrsta helgin í október er tileinkuð sláturtíðinni á Kex Hostel. Sláturtíðin er sá tími þegar féð kemur af fjalli og lömb færð til slátrunar. Uppgrip eru í sláturhúsum landsins og fyllast kjötborð verslana af nýslátruðu.

Réttir kindur sauðfé

Sælkerarnir á Kex Hostel fagna sláturtíðinni með íslenskum sauðfjárbændum alla helgina.

Framandi ókeypis réttir

Laugardaginn 1. Október verður götumatarmarkaður með lambakjöti og innmat á Kex Hosteli á milli klukkan 13:00-17:00. Þar geta gestir fengið að smakka á ýmsum réttum úr lambakjöti og innmat. Réttirnir eru í sérkennilegri kantinum fyrir þá sem smökkuðu ekki á öðru í sláturtíðinni hér áður fyrr en svið og slátur.

2016-01-21 18.33.13

Matseðillinn hjá matráðum Kex Hostels eru m.a.:

  • steikt rúllupylsa á súrdeigsbrauði
  • lamba-taco í vefju með sýrðu hvítkáli, sterkri sriracha sósu og kóríander
  • bris’n’chips – þ.e. bris með frönskum í kramarhúsi
  • frelsisborgari KEX með lambakjöti
  • nýru og hjörtu í enskri „Cornish pasty“ böku
  • slátur í pylsubrauði með rófu

Réttirnir verða bornir fram í veislusalnum Gym & Tonik á Kex Hostel og kosta ekkert.

 

Hrærum nú í blóðmör!

10384699_10153119377888586_1883356338462241652_nSláturfjörið heldur áfram á Heimilislegum sunnudegi á Kex Hostel 2. október á milli klukkan 13:00-15:00.

Þá mun Margrét Sigfúsdóttir, skólameistari Hússtjórnarskólans, sýna hvernig hreinsa á vambir, brytja mör, sauma keppi og hræra í blóðmör.

Þetta gæti auðvitað virkað eins og hryllingsmynd á börnin í dag en er í raun stórkostleg skemmtun.

Heimilislegir sunnudagar eru fyrir börn og er öllum frjálst að koma og fylgjast með því hvernig á að bera sig að við sláturgerðina.

En af hverju slátur?

Í tilkynningu frá Kex Hostel um sláturstuðið segir Böðvar:

„Við erum svo gjörn á að leita langt yfir skammt. En við erum með fyrsta flokks hráefni hér á Íslandi. Við viljum sýna fólki að það er hægt að gera alls konar skemmtilega hluti við kjötið sem fellur til í sláturtíðinni og búa til svolitla matarhátíðarstemningu í kringum það.“

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd