Ebba Guðný kennir börnum að gera kókoskúlur fyrir kósýkvöldin

Ebba Guðný Guðmundsdóttir

„Við ætlum að læra að gera hollan einfaldan hristing, kókoskúlur sem er frábært nammi á kósýkvöldi eða um helgar,“ segir sjónvarpskokkurinn og bókahöfundurinn Ebba Guðný Guðmundsdóttir. Hún verður með námskeið fyrir yngstu geseti Borgarbókasafnsins í Sólheimum í Reykjavík laugardaginn 24. september. Ebba Guðný er þekkt fyrir ljúffenga og heilsusamlega rétti og mun hún ekki bregða út af því á bókasafninu. Í uppskriftabókinni á laugardag verður heilnæmt nammi og sætabrauð.

 

Gerir heilsusamlegan mat

Ebba Guðný Guðmundsdóttir

Þetta er Ebba Guðný:

Hún hefur skrifað fjórar matreiðslubækur sem innihalda uppskriftir að heilsusamlegum mat, gert sjónvarpsþættina Eldað með Ebbu, sem sýndir voru á RÚV og kennt fólki að elda hollan og góðan mat í MBL Sjónvarpi. Ebba Guðný er líka með innslög á vefsíðunni snarlid.is. Þar eru örmyndbönd, sniðugar uppskriftir og fræðsla fyrir börn. Markmið Snarlsins er að vekja áhuga hjá krökkum á að læra að elda sjálf holla og fljótlega rétti eftir skóla.

Svo heldur Ebba Guðný líka úti vefsíðunni Pure Ebba, en þar má nálgast allskonar upplýsingar á ensku um heilsusamlega bakstur, ráðleggingar hennar og vangaveltur ásamt mörgu fleiru.

 

Börnin eru fljót að læra

Mörgum börnum finnst gaman að baksa í eldhúsinu en auðvitað getur það verið erfitt heimavið. Það liggur beinast við að spyrja Ebbu Guðný hvernig gangi að baka og elda með börnum. Hún er reyndar fjarri því nýgræðingur. En sjáum hvað hún segir:

„Það gengur ljómandi vel! Þau eru mörg hver svo flink, öll viljug að læra, dugleg að lesa og fara eftir fyrirmælum. Svo eru börnin ráðagóð og fljót að tileinka sér handtökin. Svo finnst mér þau líka svo dugleg við að bera matinn fallega fram,“ segir hún.

En hvað finnst börnum skemmtilegast að gera í eldhúsinu?

„Ég held þeim finnist gaman að gera flest allt, hristinga, kökur og mat – það skiptir ekki máli hvað þau eiga að gera.“

Ebba Guðný Guðmundsdóttir

Eldaði sjálf lítið í æsku

Fannst þér sjálfri gaman að baka og elda í æsku?

„já, mér fannst það mjög gaman. Einhverra hluta vegna eldaði ég minna, en var dugleg að baka,“ svarar Ebba Guðný.

 

Ekki hlaupa út í búð eftir óhollustu

Hvað fleira ætlar Ebba Guðný að kenna börnunum að baka en kókoskúlur og hristing?

„Ég ætla að kenna börnunum líka að gera vöfflur. Það kemur yfir okkur öll löngun í eitthvað mjög gott. Í staðinn fyrir að hlaupa út í búð og kaupa eitthvað tilbúið er einfaldara og hollt að búa til vöfflur heima, já eða hristing og kókoskúlur,“ segir Ebba Guðrún að lokum.

 

Munið að skrá ykkur á námskeið

Námskeiðið í Borgarbókasafninu í Sólheimum á laugardag er frá klukkan 13:00 til 14:00. Takmarkaður fjöldi er á námskeiðið og því nauðsynlegt að skrá börnin á það. Ef þið viljið fara á námskeiðið á að senda tölvupóst á sigrun.jona.kristjansdottir@reykjavik.is

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd