
Eva María Jónsdóttir segir lykilinn að farsælu heimilishaldi í stórri fjölskyldu að hittast að minnsta kosti kvölds og morgna og rabba saman um það sem á daginn hefur drifið. Aliir þurfa líka að hjálpast að. MYND / Eva María Jónsdóttir
Hvað er skemmtileg samverustund fjölskyldunnar?
Fjölmiðlakonan Eva María Jónsdóttir lýsti fjölskyldulífinu í sérblaðinu Börn og uppeldi sem fylgdi Morgunblaðinu um miðjan september. Viðtalið var svo endurbirt í Smartlandinu á mbl.is.
Heimilishaldið getur við heldur líflegt hjá Evu Maríu enda börnin sjö. Í viðtalinu segir Eva María mikilvægt að allir gangi í takt.
Gott að hittast kvölds og morgna
Eva María var meðal annars spurði að því hver væri lykillinn að farsælu fjölskyldulífi. Hún sagði lykilinn að því að fjölskyldan hittist að minnsta kosti kvölds og morgna, rabbi saman um það sem á daga heimilisfólks hefur drifið og að allir hjálpist að. Foreldrarnir þurfi að vera leiðtoga og þurfi þeir að setja þessar stundir í forgang og tryggja hvíld á nóttunni. Til að það gangi verði allir í fjölskyldunni að vera tilbúnir að fara í rúmið á kvöldin.
Allir halda herberginu hreinu
Verkaskipting er skýr á heimili Evu Maríu. Hún segir foreldrana verkstjóra heimilisins, þau eldi matinn og þvoi þvott allra nema elstu barnanna. Börnin hafa svo fast eitt kvöld í hverri viku til að ganga frá í eldhúsinu og einn morgun í viku til að bera út blöðin. Þá sér hvert barn um að halda herberginu sínu hreinu. Engu að síður komi stundum utanaðkomandi hjálparkokkur í heimsókn til að hjálpa til við þrifin.
Hvað er gaman að gera saman?
Eva María er líka spurð að því hvað fjölskyldunni finnst gaman að gera saman. Það getur líka verið svolítið erfitt þar sem fjölskyldan er stór. Eva María segir heimilisfólkinu finnast gaman að vera heima, poppa, fara í fótabað, horfa á mynd í sjónvarpinu og hlaupa í gegnum úðara þegar veður leyfir.
„Ég nenni ekki að telja upp allar æsilegu skemmtiferðirnar, fjallgöngurnar, sundlaugaheimsóknirnar, sumarbústaðadvalirnar og grillpartíin sem börnin hafa misgaman af,“ svarar Eva María. Hún bætir þó við að sjónvarpsefni sameini yfirleitt ekki fjölskylduna. Hún muni þó eftir einni mynd, The Impossible sem allir horfðu hugfangnir á.
Besti meðaltalsmaturinn
Það er ótrúlegt ef níu manna fjölskylda getur sameinast um einn uppáhaldsmat. Spurð að því hvaða matur er í uppáhaldi hjá fjölskyldunni segir Eva María að ef meðaltalsaðferð er beitt þá sé uppáhaldið kjúklingasalat. Ef skoða eigi uppáhaldsmat hvers og eins sé úrvalið mun meira. Ofarlega á blaði séu sushi, grillaður humar, nautakjöt með austurlenskum blæ, avókadófranskar, múslí, pestópasta og steiktur fiskur með sítrónupipar.
Um hvað er myndin?
Myndin er með þeim Ewan McGregor og Naomi Watts. Hún fjallar um fimm manna fjölskyldu sem lendir í náttúruhamförunum í kjölfar jarðskjálfta á Indlandshafi á öðru degi jóla árið 2004. Jarðskjálftinn olli því að gríðarlegar flóðbylgjur, allt að 30 metra háar, skullu á strandlengjum 14 landa við Indlandshaf með þeim afleiðingum að 227.000 lét lífið.
Hlý nærvera er dýrmætust
Eva er spurð að því hvað sé það dýrmætasta sem hún geti gefið börnum sínum.
Hún svarar: „Það dýrmætasta sem maður gefur börnum er hlý nærvera og tími. Allt annað er hjóm eitt.“
Oft vantar einhvern
Við höfðum samband við Evu Maríu til að biðja hana um mynd af fjölskyldunni í umfjöllun okkar á Úllendúllen. Eva María svaraði fljótt og vel að hún ætlaði að athuga hvort hún eigi nothæfa fjölskyldumynd. Auðvitað var það vandamál í svo stórri fjölskyldu.
„Við erum níu og því oftast einhver sem er ekki með á myndinni eða tekur hana.“