Hvernig á að fá börn og ungmenni til að lesa meira? Þetta er endalaus hausverkur. Þrátt fyrir allt sem foreldrar leggja á sig til að fá börn til að lesa og sjá pínulítinn árangur af því, þá eru íslensk börn samt eftirbátar annarra innan aðildarríkja OECD. Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, segir íslenskum börnum hafa farið aftur í lesskilningi og stærðfræði. Það sé áhyggjuefni.
Áttu kortér á dag?
Heimili og skóli – landssamtök foreldra – ætla að snúa þessu við.
Samtökin hafa búið til Læsissáttmála sem hefur það að markmiði að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns og sýna foreldrum jafnframt fram á þá ábyrgð sem á þeim hvílir hvað lestur barna þeirra snertir.
Undirtitill sáttmálans er: Áttu kortér á dag?
Í sáttmálanum koma fram ýmsar tillögur sem hafa það að markmiði að bæta orðaforða og lesskilning barna.
Nokkur atriði:
- gera lestrarstund að jákvæðri upplifun
- hafa fastan lestrartíma á hverjum degi
- Spyrja um söguþráðinn
- Spyrja út í persónur
- Sýna lestri barnsins áhuga og hrósa þegar við á
- Hlusta á barnið lesa daglega
- Gott er að skiptast á að lesa ef textinn reynist erfiður
- Fá börn til að lesa í fríum og taka bækur með í ferðalög
- Lesa bækur á eigin tungumáli
Fara á 50 fundi
Læsissáttmálinn var kynntur við hátíðlega athöfn í Vallarskóla á Selfossi í byrjun mánaðar og mun starfsfólk Heimilis og skóla á næstu mánuðum ferðast um allt land og kynna hann en innleiða á sáttmálann í sem flesta skóla. . Stefnt er á að starfsmenn Heimilis- og skóla haldi allt að 50 kynningafundi um Læsissáttmálann.
Það er auðvitað að heyra á henni Hrefnu að Læsissáttmálinn er eins og heimanámið – eilífðarverkefni.
Við spurðu Hrefnu um eitt og annað sem snýr að Læsissáttmálanum, af hverju börn þurfi að lesa meira og hvernig viðtökurnar hafa verið.
Hvernig standa íslensk börn sig í lestri?
„Ef við tökum mið af þeim upplýsingum sem fyrir liggja þá gefa t.a.m. síðustu niðurstöðu PISA-rannsóknarinnar tilefni til að hafa áhyggjur. Árangur íslenskra nemenda í lesskilningi og læsi á stærðfræði og náttúrufræði virðist hafa versnað síðastliðinn áratug og mælist nú undir meðaltali OECD ríkja. Einnig er mikið brottfall úr íslenskum framhaldsskólum og færri ljúka námi á tilsettum tíma. Við svona fregnir hringir viðvörunarbjöllum og mikilvægt er að bregðast strax við. Kosturinn við að búa í fámennu samfélagi eins og við höfum á Íslandi er sá að mögulegt er að snúa þróuninni tiltölulega fljótt við með réttum og snörum viðbrögðum og samtakamætti allra hlutaðeigandi.“
Eru þetta raunhæf markmið?
„Mikilvægt er að læra af reynslu annarra þjóða sem hafa farið í gegnum sams konar umbætur. Markmiðin eru fá en metnaðarfull en ég held að allir hljóti að geta fallist á að þau eru mikilvæg. Við viljum bæta læsi þannig að sem flestir auki möguleika sína í lífinu og með samstilltu átaki um að setja lestur í forgang, markvissri stefnumótun, betri aðbúnaði og nýjum áherslum má koma miklu í verk.“
Hvað gerið þið til að kynna læsismarkmiðin?
„Við höfum útbúið Læsissáttmála fyrir foreldra sem hefur það að markmiði að stuðla að aukinni lestrarfærni barna og unglinga með þátttöku og stuðningi foreldra. Sáttmálanum er ætlað að virkja foreldra í að styðja við læsi og lestrarþjálfun barna sinna og auka vitund um ábyrgð þeirra gagnvart læsi barna sinna. Einnig er sáttmálinn liður í að auka samstarf skóla og foreldra um læsisnám barna. Læsissáttmálinn inniheldur sex atriði um lestur og læsi sem rædd eru á fundi bekkjarforeldra með umsjónarkennara. Á fundinum er ítarefni dreift til foreldra þar sem farið er nánar í hvert atriði. Þegar umræður hafa farið fram og foreldrar borið saman bækur sínar um hvað þeim finnst mikilvægt í þessu samhengi er sáttmálinn undirritaður og hengdur upp, yfirleitt í skólastofu barnanna. Þannig eru umræðurnar rammaðar inn á táknrænan hátt og sýnilegar nemendum.
Um þessar mundir er starfsfólk Heimilis og skóla á ferð um landið til að innleiða og kynna Læsissáttmálann og dreifa efni, en sáttmálanum fylgir fjölbreytt efni. Auk veggspjalds, leiðbeininga og ítarefnis er hægt að fá kynningarbækling, lestrarhefti til að kvitta í fyrir upplestur, bókamerki og ískápssegla. Allt efni sáttmálans er með leturgerð sem hönnuð er fyrir lesblinda og á að auðvelda þeim lesturinn. Hægt er að panta efni hjá Heimili og skóla, ýmist sækja eða fá sent, en einnig er hægt að nálgast allt efni sáttmálans á heimasíðu samtakanna, heimiliogskoli.is.“
Hvernig eru undirtektirnar?
„Undirtektir hafa verið gríðarlega góðar enda læsi búið að vera mikið í umræðunni. Flestir skólar landsins hafa unnið metnaðarfullar læsisstefnur og eru að vinna í málunum. Fólk er almennt hrifið af efni sáttmálans og framsetningu og ánægt með þær ábendingar sem í boði eru. Læsissáttmálinn þykir prýðilegur rammi um umræður, líkt og Foreldrasáttmálinn sem við gefum einnig út og er fyrirmynd Læsissáttmálans. Hann er eitt af okkar vinsælasta efni.“
Koma upp einhverjar spurningar á fundunum?
„Já, það koma upp ýmsar spurningar og vangaveltur. Margir eru að velta fyrir sér hvernig er best að vekja áhuga barna á lestri og fá þá sem eru áhugalausir til að taka sér bók í hönd. Þá skapast oft skemmtilegar umræður þar sem foreldrar ráðleggja hvort öðru og koma með gagnlegar ábendingar. Einnig hefur verið mikil ánægja með lestrarbingó Heimilis og skóla sem finna má á heimiliogskoli.is. Mörgum þykja þau gagnast til að gera lesturinn skemmtilegri og ýta krökkum af stað. Einnig er fólk að velta fyrir sér hvaða efni er áhugavert, t.d. fyrir stráka á tilteknum aldri o.s.frv. sem hafa kannski sýnt lestri takmarkaðan áhuga. Það vekur líka athygli fólks að sjá hve fylgnin á milli lesturs og orðaforða er sterk en börn sem lesa hafa mun meiri orðaforða. Auk þess hefur tíminn mikið að segja en foreldrum þykir áhugavert að sjá hvað munar miklu á þeim sem lesa t.d. 10 mínútum lengur á dag.
Að lokum er talsvert spurt um lestur á eigin tungumáli en foreldrar tvítyngdra barna eru stundum tvístígandi í hvernig þeir eigi að snúa sér í þessu öllu saman. Til dæmis hefur það komið sumum á óvart að mikilvægt er að lesa fyrir börn bæði á móðurmáli sínu og íslensku. Öll börn þurfa að öðlast sterkan grunn í a.m.k. einu tungumáli til að ná tökum á lestri og foreldrar barna sem alast upp við tvö eða fleiri tungumál þurfa að hlúa sérstaklega vel að máltöku málþjálfun barna sinna. Tvítyngi hefur jákvæð áhrif á nám þegar báðum tungumálum er haldið við og þegar foreldrar lesa fyrir barn á móðurmáli sínu styrkist lesskilningur þess og orðaforði. En ef áætlað er að barnið verði alla sína grunnskólagöngu í íslenskum skóla er heppilegast að það læri sem fyrst að lesa og tala íslensku.“