Boðið var upp á kakó með rjóma og grillaðar samlokur með osti og spægipylsu á kynningu Kex Hostels á Rokkhátíð Æskunnar í gær, miðvikudag. Benedikt Reynisson, talsmaður hátíðarinnar hjá hostelinu, gekk á milli og ræddi við gesti sem komnir voru að kynna sér rokkhátíðina og tók í æðislega flottan Hofner rafmagnsgítar sem var á svæðinu.
Þetta er í fyrsta sinn sem rokkhátíðin er haldin. Ef hún tekst vel þá verða þær vonandi miklu fleiri í framtíðinni. Það eru Heimilislegir sunnudagar, sem hafa gert sunnudagana kósý á Kex Hostel í nokkur misseri, sem halda rokkhátíðina með sjálfboðaliðasamtökunum Stelpur Rokka.
Rokkhátíðin er hugsuð fyrir krakka frá 5-14 ára aldri. En auðvitað eru krakkar á öllum aldri velkomnir á hátíðina, að sögn Benedikts Reynissonar hjá Kex Hostel. Hann gerir ráð fyrir 150-200 manns þegar mest verður í húsinu.
Rokkhátíð Æskunnar hefst klukkan 13:00 og er gert ráð fyrir að henni ljúki klukkan 17:00. Ókeypis er fyrir alla krakka og forráðamenn þeirra.
Heljarinnar stuð
Dagskrá rokkhátíðarinnar lofar góðu. Hún er blanda af lifandi tónlistarflutningi í bland við gagnvirka fræðslu og vinnusmiðjur þar sem krakkar fá að fikta í hljóðfærum sem búin eru til úr ávöxtum, smíða sinn eigin hljóðnema, búa til barmmerki, grúska í raftónlist og margt fleira.
Á meðal þeirra sem fram koma í bókahorninu á Kex Hostel á rokkhátíðinni eru Hildur, RuGl, Hasar Basar, Meistarar Dauðans, Hush, Hush og fleiri bönd sem hafa verið að æfa með sjálfboðaliðasamtökunum Stelpur Rokka.
Í salnum Gym & Tonic verða svo Stelpur Rokka, raftónlistarmaðurinn Futuregrapher, tækninördarnir í Skema, hönnuðir frá Jónsson & LeMacks, Mussila og fleiri með smiðjur og fræðslu.
Svona er dagskráin
- 13:00 Hasar Basar
- 13:15 RuGl
- Hlé í 30 mínútur
- 14:00 Hush Hush
- 14:30 Kyrrð
- Hlé í 30 mínútur
- 15:20 Meistarar Dauðans
- 16:00 Hildur Kristín
Smiðjur og kynningar
Stelpur Rokka verða með kyninngu á starfi sínu og kenna krökkum að gera barmmerki og míkrófóna.
Tónlistarmaðurinn Futuregrapher kennir trixin sem felast í því að gera raftónlist. Allir sem vilja mega fikta í græjunum.
Skema kynnir Makey Makey, sem er tölvurás sem gerir fólki kleift að búa til tónlisst með ávöxtum og fleiri hlutum.
Grafíski hönnuðurinn Sigurður Oddsson kennir líka grunnatriðin í því hvernig gera á lógó. Efnt verður til samkeppni um vörumerki Rokkhátíðar Æskunnar. Verðlaun fyrir besta lógóið er að það verður notað í framtíðinni fyrir hátíðina.
Tæknifyrirtækið Mussila kynnir svo glænýtt smáforrit fyrir krakka sem heitir Mussila DJ. Allir sem nota það gera orðið alvöru plötusnúðar.
Nú er bara að drífa sig á Kex Hostel eftir hádegi á sunnudag.