
Jean Posocco, sem notar listamannsnafnið Jan Pozok þegar hann teiknar, hefur lesið myndasögur frá því hann var sjö ára.
„Ég veit að skilgreining á myndasögum hér á landi er oft niðrandi. En þeir sem tala illa um myndasögur hafa líklega aldrei opnað myndasögubók eða hreinlega skilja ekki hvernig myndasaga er lesin,“ segir Jean Posocco hjá Froski útgáfu. Hann vinnur að því þessa dagana að setja upp myndasögusýninguna 20 ár með blek á puttunum í Borgarbókasafni í Grófinni við Tryggvagötu. Jean segir börn geta og eiga að lesa fleiri myndasögur en Andrés Önd.
Sýningin er afmælissýning í tilefni af 20 ára afmæli myndasögublaðsins Neo-Bleks. Blaðið hóf göngu sína sem Hazarblaðið Blek fyrir 20 árum.
Hún hefst 3. september næstkomandi og verður uppi til 25. september.
Atvinnulausir gera myndasögur
Blek spratt upp úr átaksverkefni á vegum Hins hússins, þar sem ungu fólki í atvinnuleit bauðst að vinna þar að hugðarefnum sínum. Upp úr átakinu varð til Félag áhugamanna um myndasögur. Félagsmenn fengu svo styrk frá Menningarmálanefnd Reykjavíkur til að gefa út fyrsta tölublað myndasögublaðsins Bleks.
Fyrsta tölublað Bleks kom út í eitt þúsund eintökum. Fram kemur í umfjöllun um sýninguna að það var ofmat. Jean var fenginn til að standa fyrir námskeiði í myndasögugerð og varð úr að hann gaf blaðið út. Næstu blöð komu út í færri eintökum og voru gefin út þegar nægt efni hafði safnast í blöðin.
Margir þekktir myndasöguhöfundar hafa stigið fyrstu skref sín í myndasagnagerð á síðum Bleks. Þar á meðal er Hugleikur Dagsson og Sigurður Ingi Jensson. Jean gefur nú blaðið út undir nafni útgáfunnar Frosks. Hann gefur út fleiri bækur og blöð, m.a. bækurnar um Sval og Val.
Í tilefni af sýningunni verður líka gefið út nýtt blað með íslenskum myndasögum og mörgu fleiru.
Það er myndasöguútgáfa Jean, Froskur útgáfa, sem fjármagnar sýninguna.
Las myndasögubók í tætlur
En hvað segir Jean sjálfur?
Við viljum auðvitað fá að vita fleira um myndasögusýninguna, hvenær hann fékk áhuga á myndasögum og hvað veldur því að maður á sextugsaldri (Jean Posocco er fæddur árið 1961) les enn myndasögur.
Jean, hvenær fékkstu áhuga á teiknimyndasögum?
„Ég held ég geti farið aftur í tímann þegar ég lá á spítala fyrir botnlangaskurð þá sjö ára gamall. Vinur fjölskyldunnar kom í heimsókn með þykka myndasögubók undir hendinni svo ég gæti stytt mér stundirnar. Þessa bók með yfir 400 blaðsíðum, var skoðuð og lesin endalaust í mörg ár. Á endanum var hún orðin rifin og tætt og endaði hún í ruslatunnunni. Þessi bók opnaði heim fyrir mér sem strax talaði til mín, sérstaklega myndirnar sem höfðu slíkt áhrif á mig að seinna meir fór ég að myndskreyta barnasögur fyrir útgefendur. En toppurinn á þessu var þegar ég gat keypt myndasögur sjálfur. Valið í Frakklandi var gríðarlega mikið.“
Lastu mikið af teiknimyndasögum í æsku?
„Þær voru aðal lesefnið hjá mér. Á þeim tíma voru gefnar út litlar svart/hvítar myndasögur sem kostuðu ekki mikið. En svo fékk ég líka gefnar bækur, lánaðar eða gat keypt myndasögur fyrir vasapeningana mína. Ég lá oft í þeim fyrir utan skólabækur sem voru skyldulesning. Myndasögur voru og eru ævintýraheimur sem auðvelt er að heimsækja. Einskonar bíómyndir sem er hægt að fletta fram og tilbaka eða stoppa á tilteknu myndbroti. Þær leyfa manni að ferðast úr hægindastólnum sínum hvert sem er, með hverjum sem er.“
Lestu enn myndasögur?
„Auðvitað geri ég það! Ég veit að skilgreining á myndasögum hér á landi er oft niðrandi. En þeir sem tala illa um myndasögur hafa líklega aldrei opnað myndasögubók eða hreinlega skilja ekki hvernig myndasaga er lesin. En myndasögur eru fullar af fróðleik fyrir börn og fullorðna. En auðvitað á það sama við um myndasögur og aðrar bækur, inn á milli eru lélegar myndasögur á meðan aðrar eru frábærar. Ég mun pottþétt lesa myndasögur til dauðadags og tek þær fram yfir allskyns efni sem fólk horfir á í sjónvarpinu.“
Hver heldurðu að jákvæð áhrif myndasagna séu á börn?
„Jákvæðu áhrifin geta verið fólgin í svo mörgu að fólk sér það ekki strax. En það má nefna lesskilning, hæfni til að geta lesið mynd og texta samtímis, hæfni til að raða hlutum á réttan hátt, agi og svo framvegis. Myndasagan getur verið kveikjan að framtíðarstarfi hjá barni sem getur látið sig dreyma um að verða rithöfundur, myndskreytari, tölvuhönnuður, sjónvarpsþulur og það mætti lengi telja áfram.“
Hvaða myndasögur ertu að lesa í dag?
„Ég les allskyns myndasögur. Ég geri ekki greinarmun á þeim ef sagan er góð. Vinnan minn sem teiknari, málari og útefandi hefur kennt mér að perlur geta leynst í hvaða holræsi sem er. Mér finnst gaman og þroskandi líka að skoða hvað aðrir eru að gera eða hafa gert. En auðvitað er það teiknistillinn sem grípur mig fyrst. En stundum læt ég mig hafa það að lesa bækur með fráhrindandi stíll til að gá hvort sagan beri meiri mótvægi við myndirnar. Það gerist og líka öfugt. En fátt fer eins mikið í taugarnar á mér og flottar myndir við innihaldslausan texta.“
Geturðu nefnt einhverjar góðar klassískar myndasögur fyrir börn? Mátt auðvitað nefna Sval og Val
„Ég veit ekki hvað skal segja en ég mæli alltaf með að börn lesi Tinna frekar en að byrja að lesa Andrés Önd. Andrés Önd sögur eru svo innihaldslitlar og svo uppfullar af endurtekningu að maður fær fljótt leið á þeim. Í Tinna er allt sem þarf. Söguþráðurinn góður og vel teiknaðar sögur. Það er forritað hjá íslensku þjóðinni að Andrés Önd er það besta fyrir barnið vegna þess að foreldrarnir lásu hann á dönsku forðum og í undirmeðvitund hlýtur það að vera áfram gott því margir lærðu dönsku í leiðinni. En nú er Andrés Önd á íslensku. Útgáfan mín Froskur gefur út klassískar myndasögur eins og Viggó, Ástrík og Sval og Val sem fer vel í krakkana. Þar munu líka nýir titlar líta dagsins ljós. Lóa, Tímaflakkarar og Múmínálfarnir eru gott dæmi um það og fleiri munu fylgja í framtíðinni.“
Hvað er sýningin í Borgarbókasafninu fyrir gömul börn?
„Er nokkuð spurt hvort barn megi fara á myndlistarsýningu? Er það fyrir barn eða jafnvel fullorðna að sjá karl í glerkassa að skíta í búri? Það sama á við um sýninguna í Borgarbókasafninu. Það eru allir velkomnir að sjá hvað hefur verið gert í myndasögugerð á þessum 20 árum sem Blek og síðar NeoBlek hefur birt. Allir eru frjálsir og geta alveg litið undan ef eitthvað fer í brjóstið á þeim. Það gæti jafnvel verið kveikjan hjá sumum til að gera betur en aðrir sem hafa teiknað í blaðið. Sem listamaður tel ég að allt hefur rétt til birtingar. Það er svo bara áhorfandinn sem dæmir hvað er gott og hvað ekki. En sýningin stendur í tvær vikur og ég vona að sem flestir kíki inn og skilji að myndasögugerð eru merkilegar bókmenntir.“
Frábært myndasögusafn
Það er frábær hugmynd hjá fjölskyldunni að gera sér ferð í Borgarbókasafnið í Grófinni við Tryggvagötu í Reykjavík. Myndasögudeildin þar er flott með efni fyrir fólk á öllum aldri. Myndasögur eru nefnilega bæði fyrir börn og fullorðna! Þar eru bækur um félagana Sval og Val, Múmínfjölskylduna, Rasmus Klump, Súperman og Batman, en líka óhefðbundnari hetjur úr verkum höfunda víðsvegar að úr heiminum.
Myndasögurnar eru bæði á íslensku, ensku, sænsku, norsku og þýsku – svo dæmi séu nefnd um allt mögulegt undir sólinni!
Myndasögudeildin í Grófinni – og auðvitað á öðrum söfnum Borgarbókasafnsins – er kjörinn áfangastaður fyrir fjölskyldur.