Í skólanum getur verið erfitt að sníða námið að þörfum hvers og eins þannig að hvert barn fái kennslu sem sniðin er að einstökum þörfum þess, þrátt fyrir einstaklingsmiðaða námskrá. Foreldrar eiga þess hins vegar frekar kost að koma til móts við sitt barn og að gera námið skemmtilegt og merkingarbært.
Vissulega er auðvelt að kasta fram svona fullyrðingu en erfiðara að fylgja henni eftir.
Lengi hefur staðið styr um heimanámið og sýnist sitt hverjum um gagnsemi þess. Hins vegar er ljóst að foreldrar hafa betri möguleika á að vinna með barninu sínu á einstaklingsgrunni heldur en kennari í 30 manna bekk. Þó svo foreldrar kunni ekki endilega nákvæm skil á því efni sem fengist er við er margt annað sem hægt er að gera til að hvetja börn til náms og skapa góða umgjörð.
Hér eru átta ráð
-
Eigðu samtal við barnið
Gott er að spyrja barnið út í hvernig það upplifir lærdóminn. Hvað finnst þér spennandi? Hvenær er leiðinlegt að læra? Hvað er skemmtilegt? Er eitthvað sem gerir þig leiða(n)/dapra(n)? Hvað var það nákvæmlega í þessu tiltekna verkefni eða aðstæðum sem gerði námið skemmtilegt eða leiðinlegt? Foreldrar hafa stundum ákveðnar skoðanir á því af hverju barnið skortir áhuga en oft er það eitthvað allt annað en þeir halda sem veldur í raun áhugaleysinu. Barnið býr yfir þessum svörum og eina leiðin til að komast að hinu sanna er að spjalla við barnið.
-
Vertu hluti af tengslaneti barnsins
Auk þess að ræða við barnið er mikilvægt að ræða við þá aðila sem eru hluti af daglegu umhverfi barnsins. Upplagt er að ræða við kennara og jafnvel námsráðgjafa sem þekkja vel daglegt nám barnsins. Líklegt er að þeir hafi aðra innsýn í hegðun barnsins en þá sem foreldrar hafa.
-
Gerðu námið hluta af hversdeginum
Nám er ekki einungis fólgið í stærðfræðibókum eða íslenskum fræðum. Nýta má ferð í matvörubúð, á verkstæði eða garðvinnu til náms í t.d. íslensku, stærðfræði og náttúrufræði. Möguleikarnir eru alls staðar. Þetta getur verið allt frá því að lagfæra hjól eða húsgögn yfir í að skrifa innkaupalista eða baka köku. Með því að virkja barnið í daglegum verkum mömmu og pabba má skapa samhengi milli náms og hversdagsins. Þá öðlast stærðfræðin merkingu þar sem hún er notuð í raunverulegum aðstæðum og markmiðið er skýrt. Auk þessa má tengja námið við skemmtilega samveru með fjölskyldunni.
-
Finndu réttu hilluna
Finna þarf jafnvægi milli getu og verkefna þannig að verkefni sé ekki of létt og leiðinlegt. Eins geta verkefni virst óyfirstíganleg ef þau eru of erfið. Því er mikilvægt að komast að því hvað hentar barninu og hvar styrkleikar þess liggja. Þetta skiptir máli þegar hugað er að næstu lærdómsskrefum en það virkar betur en að einblína á endanlega niðurstöðu. Nám byggist upp á að viðeigandi skref séu tekin jafnt og þétt svo tiltekinni hæfni verði náð. Ekki er hægt að byggja ofan á eitthvað sem er ekki til staðar. Ef eitthvert verkefni er of erfitt ekki vera feimin við að bakka aðeins og vinna verkefni þar sem barnið upplifir árangur. Því næst er hægt að byggja ofan á þá kunnáttu sem þegar hefur verið náð.
-
Finndu tilgang
Lítill áhugi barns á námi er stundum vegna þess að nemandinn sér ekki tilganginn með því sem kennt er. Af hverju þarf ég að læra þetta? Til hvers nota ég þetta? Ef barnið sér t.d. enga þýðingu eða tilgang með stærðfræðitímum þá má nota dæmi úr daglegu lífi og setja námið í samhengi. Til dæmis er upplagt að elda eða baka saman þar sem oft þarf að mæla og vigta hráefni, reikna verð á vörum í búðarferð og einnig setja saman húsgögn úr Ikea.
-
Finndu hentuga námsaðferð
Allir læra á sinn einstaka hátt allt eftir því hvernig hver og einn skynjar umhverfi sitt. Ljóst er að ein aðferð virkar ekki fyrir alla. Sumir læra best með sjónskynjun á meðan aðrir þurfa að snerta hlutina og handleika eða eiga samtal um efnið. Gerið tilraunir með mismunandi námsaðferðir með því að vinna með ólíka skynjun. Ekki er nauðsynlegt að sitja alltaf við skrifborð með nefið ofan í bók. Ef verkefnið snýst um stærðfræði er kannski hægt að nota hluti eins og bolta, kubba eða myndir. Ef skrifa á ritgerð í íslensku er kannski hægt að horfa á kvikmynd um efnið og spjalla síðan um hana þegar þið farið í göngutúr. Hægt er að hlusta á hljóðbækur, þýða uppskriftir á önnur tungumál o.s.frv. Til eru ýmsar leiðir að sömu markmiðum.
-
Viðurkenndu barnið þitt
Viðurkenning er afar mikilvægur þáttur þegar kemur að því að virkja áhuga. Veittu barninu viðurkenningu fyrir það sem það kann og gefðu markvissa endurgjöf á tiltekin verkefni eða aðstæður. Í stað þess að hrósa einungis fyrir dugnað í íslensku er mikilvægt að beina heldur sjónum að tilteknum þáttum sem stuðla að því að barnið stendur sig vel í íslensku. Til dæmis mætti nefna að í ritgerðinni sem barnið er að vinna að spili málfræðin og stíllinn vel saman. Einnig getur þetta verið eitthvað tengt þeirri aðferð sem barnið beitir. Í stað þess að hrósa barninu fyrir að vera þægt og gott svona almennt mætti nefna tiltekin atvik eins og: „Takk fyrir að hjálpa til við að taka af borðinu, ég kann að meta þegar þú aðstoðar við húsverkin,” eða hrósa fyrir góð samskipti, t.d. við vini.
-
Taktu hlé
Þegar setið er við heimalærdóm eða önnur verk sem krefjast einbeitingar er mikilvægt að gera hlé með jöfnu millibili. Heilinn þarf á ró að halda, líkaminn þarf að hreyfa sig og þetta stuðlar að betri einbeitingu og námi. Til dæmis er allt í lagi að leggjast út af í fimm mínútur með augun lokuð og taka stutta hugleiðslu með því að gefa líkamanum gaum. Þetta stuðlar að innri ró og veitir börnum kærkomna hvíld frá öllu því áreiti sem getur verið í umhverfinu og börn finna stöðugt fyrir. Stundum getur verið gott að hreyfa sig, fara t.d. út að hlaupa eða í fótbolta til að fá smá útrás svo auðveldara verði síðan að einbeita sér.
Heimild: Jannie Holm Audebo. (2016). Når læring bliver til sjove hverdagsaktiviteter i familien. Skolebørn, nr.1, 26-27.
_______________________
Höfundur er Hrefna Sigurjónsdóttir
Hrefna er framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.