
Óskar Guðjónsson er með þekktustu djassspilurum landsins. Hann hefur spilað með Mezzoforte og fleiri flottum böndum. MYND / skjáskot
Óskar Guðjónsson saxófónleikari er annar gestaleiðbeinenda á tilraunanámskeiðinu Krakkamengi í Mengi við Óðinsgötu í Reykjavík. Námskeiðið snýst um tónlistarsköpun barna á aldrinum 4-6 ára. Gestaleiðbeinandi með Óskari er tónlistarkonan Sóley Stefánsdóttir.
Óskar telur lærdóm barnanna af tilraunanámskeiðinu geta ráðist af því hvernig foreldrarnir taki í það.
„Þetta snýst að stórum hluta um að foreldrarnir þori að taka þátt í þessu með börnunum,“ segir hann.
Benni stofnar Krakkamengi
Tónlistarmaðurinn og kennarinn Benedikt Hermann Hermannsson, sem er af mörgum þekktari sem Benni Hemm Hemm, er heilinn á bak við tilraunanámskeiðið Krakkamengi. Fyrsta námskeiðið var sunnudaginn 24. janúar og eiga þau að vera sex talsins.
Lesið viðtal Úllendúllen við Benna Hemm Hemm um Krakkamengi.

Gestaleiðbeinendur á fyrri námskeiðum hafa verið þau Víkingur Heiðar Ólafsson og Kristín Anna Valtýsdóttir, Futuregrapher, Kira Kira, Magga Stína og Finnbogi Pétursson. MYND / Mengi
Þetta er í fyrsta sinn sem Óskar er í hlutverki leiðbeinanda á námskeiðinu. Óskar viðurkennir að hann renni svolítið blint í sjóinn. Spurður um það hvað hann ætli að gera svarar Óskar því til að hann horfi á námskeiðið eins og djassleikari á tónleikum. Fyrst og fremst eigi námskeiðið að vera skemmtilegt.
Hlustar á börnin
„Við munum skapa aðstæður fyrir krakkana og foreldra þeirra til að leika sér aðeins saman að hinum og þessum hljóðfærum, búa til tónlist, impróvisera saman og nálgast tónlistina og sjá svo hvað gerist. Það á bara að leyfa þessu að gerast,“ segir hann og bendir á að allir djasstónleikar þróist eftir því hverjir mæta á þá, hvaða hugmyndir tónlistarmennirnir eru og með og hvað þeir vilja gera.
Sama hugsun verður í gangi á tilraunanámskeiðinu, að sögn Óskars. Gestaleiðbeinendur muni reyna að vera eins opin og þau geti fyrir því sem börnin vilja gera og láta þetta allt saman ganga upp á forsendum leiks.
„Þetta snýst held ég meira um leikinn, að börnin búi til hljóð ein og líka saman og sjái svo hvað hver og einn fattar og hvort hægt er að tengja hljóðin saman,“ segir Óskar og bætir við að niðurstaðan og lærdómurinn af tilraunanámskeiðinu geti ráðist af því hvernig foreldrarnir taki í það.
„Þetta snýst að stórum hluta um að foreldrarnir þori að taka þátt í þessu með börnunum,“ segir hann.
Ókeypis tónlist í Krakkamengi
Ekkert kostar á námskeiðin í Mengi og geta allir komið á meðan húsrúm leyfir. Fjöldinn takmarkast af stærð Mengis en það tekur í kringum 50 gesti.
Fyrirkomulagið á námskeiðinu er að börn koma með foreldrum/forráðamönnum sínum í Mengi á sunnudagsmorgni klukkan 10.30 og vinna í vinnustofu í um klukkustund. Að því loknu fer fram flutningur á afrakstri vinnustofunnar og er öðrum gestum þá velkomið að koma og hlusta. Gert er ráð fyrir því að námskeiðinu ljúki ekki síðar en klukkan 12.30.