Hvernig á að taka til í barnaherberginu?

20160211_222441 copy

Það getur verið erfitt að taka til í barnaherbergjum og ákveða hvað eigi að fara ofan í geymslu, út í skúr eða gefa. Þetta getur reyndar verið alveg jafn erfitt og að taka til í bókaskápnum, geisladiskarekkanum, sokkaskúffunni og í bílskúrnum.

Mínímalískur lífsstíll er vinsæll nú á tímum ofgnóttar. Það er skiljanlegt, enda getur verið truflandi og erfitt að eiga of mikið af hinu og þessu. Það er erfitt að þurfa um hugsa um allt það sem maður á, taka til í stórum íbúðum og þurrka af of miklu dóti. Með færra dóti og nægjusemi verður meiri tími fyrir annað. Í leiðinni má hugsanlega safna peningum í stað þess að kaupa dót sem fer fljótlega niður í geymslu.

Magnea og Þórhildur losuðu sig við draslið.

Áslaug Guðrúnardóttir segir frá því í bókinni Mínímalískur lífsstíll sem nýkomin er út að fara þurfi varlega í sakirnar og taka tillit til þess hvað barnið leikur sér helst með. Áslaug segir að búa megi til skemmtilega leiki úr þessari tiltekt í barnaherberginu, fá barnið með sér í lið og eiga í leiðinni samverustund.

Börnin læra við eldhúsborðið

Áslaug skrifar:

„Út um allt eru leikföng, kubbar, litir, blöð og óteljandi litlir hlutir sem virðast aldrei geta verið á sínum stað. Rúmið er fullt af leikföngum, það er haugur á skrifborðinu, sem þjónar nú frekar hlutverki dótahillu en vinnuborðs. Enda sitja börnin ofast við eldhúsborðið við að teikna, lesa og þess háttar. Afar sjaldan fer þessi iðja fram við þeirra eigið skrifborð inni í herbergi. Þarna er magnað tækifæri fyrir mínímalistann til þess að láta ljós sitt skína.“

Áslaug segir mikilvægt að fara varlega í sakirnar og taka tillit til þess hvað barnið leikur sér helst með og hvernig það notar herbergið sitt. Best sé að byrja á því að henda ókláruðum myndum, rifnu og brotnu dóti og öðru sem hiklaust má flokka sem rusl. Að því loknu má demba sér í að flokka leikföngin sem aldrei eru notuð, smádótið, leikföng, bækur og alls konar smádót.

„Þegar yfirferð er lokið og eftir er aðeins það sem barnið notar og þarf til þess að njóta sín í herberginu, er mjög líklegt að stakkaskipti hafi orðið á vistarverunni. Í framhaldi má reyna að hafa áhrif á gjafastreymi til barnsins, a.m.k. frá nánum vinum og ættingjum og afstýra því að herbergið fyllist aftur af plastleikföngum sem enginn leikur sér með,“ skrifar Áslaug.

Hvað þarf barnið?

Áslaug segir frá því í kaflanum að hún hafi yfirleitt reynt að hafa áhrif á hvað dætur fái í gjöf, a.m.k. á meðan þær eru ungar. Þá hafi hún komið því til skila til ættingja hvað vantar.

„Það er vel hægt að stýra því að barnaherbergið fyllist ekki af dóti sem enginn lítur við nema rétt meðan það er nýtekið upp úr pakkanum,“ skrifar hún í bókinni Mínímalískur lífsstíll.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd