
Rafn, sem verður 14 ára á árinu, bakaði gómsætar bollur fyrir fjölskylduna með sunnudagskaffinu. Meðlætið var svolítið öðruvísi en vaninn er.
Kaffikrakkinn Rafn Ísak Winthersson og kökukrakkinn Róbert bróðir hans eru ástríðufullir sælkerar. Þeir bökuðu að sjálfsögðu bollur með kaffinu í gær og buðu foreldrum sínum og afa og ömmu í heimsókn í bollur.
Bræðurnir eru 10 og 13 ára en verða 14 og 11 ára á árinu. Þrátt fyrir ungan aldur eru þeir engir aukvisar í eldhúsinu. Síðastliðnar tvær Menningarnætur hafa þeir bræður rekið kaffihús í garðinum heima hjá sér í Bólstaðahlíðinni og boðið gestum og gangandi upp á kaffi og kruðerí. Þar hefur Rafn hellt upp á kaffið en Róbert séð um meðlætið.
Lesið hér um kaffihús kaffikrakkans og kökukrakkans.
Frumraun á bolludegi
Að sögn móður þeirra hafa þeir Róbert, sem verður 11 ára á árinu, og Rafn ekki áður bakað bollur fyrir bolludaginn. Í þetta sinn sá Rafn, sem verður 14 ára á árinu, um baksturinn þar sem bróðir hans þurfti að bregða sér af bæ og keppa í knattspyrnu. Áður en hann fór setti hann hins vegar fram lista yfir það sem átti að vera á bollunum. Frumraunin heppnaðist frábærlega.
Þetta voru um 25 vatnsdeigsbollur með gómsætu innihaldi og glæsilegar útlits. Fáeinar bollur voru hefðbundnar með rjóma, sultu og súkkulaði fyrir ömmu og afa.
Hinar voru algjörar sælkerabollur. Þær voru með nutella og ferskum jarðaberjum, lemoncurd, rjóma og glassúr. Ein var gerð fyrir móður þeirra og var hún með bræddum cemenbert osti á milli og hunangi og muldum valhnetum ofaná.
Hér getið þið fundið uppskrift að vatnsdeigsbollum. Nú er bara að fara inn í eldhús með börnunum. Ef þið viljið eitthvað annað á bollurnar þá eru kaffi- og kökukrakkarnir flott fyrirmynd. Látið ímyndunaraflið leika lausum hala í eldhúsinu!