
Bergrún Íris les mest barnabækur þessa dagana. Hana langar til að taka bækur fram yfir sjónvarpstækið og þvottinn sem þarf að brjóta saman. Efst á óskalistanum eru Stóri skjálfti Auðar Jónsdóttur og Mamma klikk.
Landsleikurinn Allir lesa er í fullum gangi. Hann hófst Bóndadaginn, 22. janúar og stendur fram á Konudaginn 21. febrúar. Í leiknum er keppt um það hversu lengi er lesið og er á vefsíðunni allirlesa.is að skrá niður og halda utan um lesturinn þótt viðkomandi taki ekki þátt.
Þetta les Bergrún
Verkefnastjóri Allir lesa er lestrarhesturinn Bergrún Íris Sævarsdóttir, en hún hefur verið mikill bókaormur frá barnsaldri. Úllendúllen langaði að vita hvað verkefnastjórinn og fjölskylda hennar les þess dagana.
Hvaða bók/bækur ert þú að lesa?
Þessa dagana les ég mest barnabækur. Ég fékk heildarsafn hinnar dásamlegu Beatrice Potter í jólagjöf og fletti reglulega upp í því til að fá innblástur. Ég og eldri sonur minn erum líka að lesa Ballið á Bessastöðum eftir Gerði Kristnýju og Grímsævintýri eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Báðar eru myndskreyttar af meistara Halldóri Baldurs sem kenndi mér einmitt á sínum tíma.

Sonur verkefnastjóra Allir lesa liggur um þessar mundir yfir Ballinu á Bessastöðum eftir Gerði Kristnýju og Grímsævintýrum Kristínar Helgu Gunnarsdóttur.
Hvaða bækur langar þig að lesa?
Efst á lista er Stóri skjálfti eftir Auði Jónsdóttur og ég á enn eftir að lesa Mömmu klikk eftir Gunna Helga. Mig langar að lesa ofsalega margt en oft vantar hvatninguna til að taka bókina fram yfir sjónvarpstækið eða þvottinn sem þarf að brjóta saman. Þess vegna er landsleikur eins og Allir lesa svo frábært spark í rassinn. Sumir segja að það taki 21 dag eða 3 vikur að mynda nýja venju eða sið og eftir mánaðar lestrarkeppni ættu allir keppendur að vera orðnir vanir, jafnvel dálítið háðir, yndislestri á hverjum degi.
Skráið þið lestur fjölskyldunnar skilmerkilega í landsleiknum?
Þar sem ég er verkefnastjóri í Allir lesa get ég ekki tekið þátt í liði en maðurinn minn er í liði á vinnustaðnum sínum og það vantar ekki keppnisskapið á þeim bænum. Við mæðginin lesum heilmikið og höfum notað allirlesa.is sem lestrardagbók þó að við séum ekki í keppnisliði.
Konur og börn lesa mest
Fram kemur á vefsíðu Allir lesa að flestir eru að lesa Mamma klikk, Sogið og Þýska húsið. Sunnlendingar standa sig vel. Sveitarfélagið Ölfus er efst á meðal keppenda en þar hefur verið lesið í 10,1 klukkustund. Hveragerðingar hafa lesið í 7,8 tíma en Vestmannaeyingar eru skráðir með 7,4 tíma.
Konur eru heljarinnar lestrarhestar en þær eru rétt rúmlega 73% þátttakenda á meðan karlar eru aðeins með 26,3%. Ein af ánægjulegri niðurstöðum enn sem komið er í lestrarkeppninni er sú að börn og unglingar á aldrinum 0-15 ára lesa mest eða í samtals 4.752 klukkustundir. Barnabækur og bækur fyrir unglinga eru þar í meirihluta. Þar á eftir kemur fólk á aldrinum 40-49 ára en það hefur lesið í samtals 3.476 klukkustundir.