Viðtal: Flestir krakkar kunna mannganginn á Þórshöfn

Ránar og yfirmaður hans, sem bjó til þetta flokka sundlaugarskákborð sem flýtur um í heita pottinum á Þórshöfn. MYND / Sundlaugin á Þórshöfn

Bláklæddur Ránar ásamt samstarfsmanni sínum og skákborðinu sem flýtur um í heita pottinum á Þórshöfn. MYND / Sundlaugin á Þórshöfn

„Fólk tekur mjög vel í taflsettið. Hér voru nokkrir krakkar að tefla í heita pottinum í hátt í klukkutíma,“ segir Ránar Jónsson, háskólanemi og sundlaugarvörður í Sundlaug Þórshafnar.

Sundhöllin er í Verinu, íþróttamiðstöðinni á Þórshöfn.

Teflt í mörgum heitum pottum

Skáksettið í heita pottinum í sundlauginni á Þórshöfn var tekið í notkun þriðjudaginn 26. janúar en þá var haldið upp á Skákdaginn 2016. Það eru Skáksamband Íslands, Skákakademían, Skákskólinn og taflfélög víða um land sem standa að Skákdeginum. Haldið er upp á hann í tilefni af afmælisdegi Friðriks Ólafssonar, fyrsta stórmeistara Íslendinga í skák. Friðrik varð 81 árs á Skákdeginum.

Taflborðið í Sundlaug Þórshafnar vakti strax mikla lukku sundlaugargesta og er vonast til að það endist lengi í heita pottinum.

Skáksett voru vígð víða um land í tilefni af Skákdeginum, m.a. á Hvammstanga, Eskifirði og Reyðarfirði.

Mikið teflt á Þórshöfn

Skáksettið í heita pottinum í sundlauginni á Þórshöfn nýtur mikilla vinsælda. MYND / Sundlaugin á Þórshöfn

Skáksettið í heita pottinum í sundlauginni á Þórshöfn nýtur mikilla vinsælda. Það er kannski soldið síðan þessir gaurar voru á grunnskólaaldri. En áhugi á skák dvínar ekki með aldrinum. MYND / Sundlaugin á Þórshöfn

Ránar segir krakka á Þórshöfn tefla mikið. Skáksett er alltaf uppi í íþróttamiðstöðinni og nota það elstu krakkar í leikskóla og þeir sem eldri eru á milli æfinga.

„Þau eru alltaf að tefla krakkarnir. Ég held að langflestir krakkar á Þórshöfn kunni mannganginn, bæði þau litlu og unglingarnir. Þau yngstu sem koma hingað úr efstu bekkjum leikskóla færa taflmennina fram og til baka og halda að þau séu að tefla. Hinir krakkarnir kunna það enda er hér mikill áhugi á skák,“ segir Ránar.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd