
Margréti I. Ásgeirsdóttur finnst gaman að fara í búninginn hennar Línu Langsokks og setjast inn í húsið hennar. Eins og sést þá er það ekkert mál að lyfta 100 kílóa lóðum fyrir þá sem eru heima hjá Línu.
Lína langsokkur er orðheppinn grallaraspói. Ef ykkur finnst gaman að Línu, viljið kíkja í heimsókn til hennar í ævintýrahúsið Sjónarhól, klæða ykkur eins og Lína, lyfta 100 kílóa lóðum eins og ekkert sé, lita myndir af Línu og vinum hennar, skoða bækur um Línu og sjá fjársjóðinn frá sjóræningjanum pabba hennar þá er Norræna húsið staðurinn fyrir ykkur.
Sýningin í Norræna húsinu í tilefni af 70 ára afmæli Línu Langsokks hefur slegið í gegn. Sýningin opnaði í nóvember 2015 og stóð til að hún yrði til áramóta. Aðsóknin er hins vegar svo góð að nú hefur sýningin verið framlengd til loka febrúar. Margrét I. Ásgeirsdóttir, yfirbókavörður í Norræna húsinu, segir að á bilinu 1.600 til 1.800. gestir, jafnt börn sem fullorðnir, hafi nú komið í heimsókn í Norræna húsið til að skoða sýninguna um Línu langsokk og rithöfundinn Astrid Lindgren.
Múmínálfar og Lína
Þetta er önnur barnasýningin sem haldin er í bókasafni Norræna hússins. Hin var haldin árið 2014 í tilefni af 100 ára afmæli finnska rithöfundarins Tove Janson, höfundar Múmínálfanna. Sú sýning var mjög vel sótt.
„Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt,“ segir Margrét þegar við heimsóttum hana í Norræna húsið. Margrét leiddi okkur frá bókasafninu niður í Barnahellinn í Norræna húsinu en þar er sýningin um Línu.
Kunni Línu-sögur utan að
Við innganginn að sýningunni er tilvitnun í Línu úr einni af sögum Lindgren. Á veggjum er fræðsla fyrir börn og fullorðna um Astrid Lindgren frá árinu 1945 þegar fyrsta sagan um Línu langsokk kom út og alveg til ársins 2015. Þar má líka sjá hvernig Lína varð til og lesa sér til um helstu persónurnar í bókunum um Línu. Á sýningunni eru líka plötur með sögum og lögum um Línu og bækur á ýmsum norrænum tungumálum, sjónvarpsþættir og bíómyndir og meira að segja teiknimyndasaga á íslensku. Margrét segir þetta sjaldséða bók sem hún hafi eignast í æsku og týnst í mörg ár.
Margrét var heltekin af sögunum af Línu langsokk í æsku og segir mikið efni til um prakkarann sem fagnaði sjötugsafmæli í fyrra.
„Þetta eru æðislegar sögur. Ég kunni þær utan að,“ játar hún og langar til að sjá fleiri íslenskar útgáfur á teiknimyndasögum á íslensku fyrir börn.
Sænska sendiráðið hjálpar
Starfsfólk bókasafnsins í Norræna húsinu skipulagði sýninguna um Línu langsokk og leitaði fanga víða. Sænska sendiráðið lagði hönd á plóg og útvegaði starfsfólki þess fjölmarga hluti sem sjá má á sýningunni. Sendiráðið var góður bakhjarl því það hélt upp á afmæli Línu með veglegum hætti í lok nóvember en þar var meðal annars boðið upp á sykraðar pönnukökur og djús.
Börn og fullorðnir elska Línu

Lína langsokkur er auðvitað sterkasta stelpa í heimi. Hún getur lyft hestinum sínum upp. Á sænsku heitir hann Lille Gubben. Það hefur ýmist verið þýtt sem Kallinn minn eða Litli minn á íslensku.
Á sýningunni um Línu langsokk fá gestir á tilfinninguna að þeir séu komnir í heimsókn í Sjónarhól, stóra húsið sem Lína býr í. Búið er að mála innviði eldhússins í eitt horn Barnahellisins og setja inn rosalega flott borð og stóla. Fatakista er í húsinu. Margrét fer rakleiðis að kistunni og nær í búning og hárkollu. Hún speglar sig og mátar nokkrar hárkollur. Sumar þeirra eru fyrir börn en aðrar passa fullorðnum.
„Fólki finnst gaman að koma hingað í húsið hennar Línu og máta fötin, bæði börn og fullorðnir,“ segir Margrét og sest á lítinn stól við eldhúsborðið í Sjónarhóli.
Hún bendir á að margt fleira er hægt að gera, lita myndir af Línu og vinum hennar sem taka má heim eða líma upp á vegg sem er skreyttur myndum gesta. Veggurinn er aldrei eins því nýjum myndum er skipt út fyrir gamlar.
Margt að gera í Norræna húsinu
Það er heilmikið að hægt að gera í Norræna húsinu. Bókasafnið er á virkum dögum opið frá klukkan 11-17 en frá 12-17 um helgar.
Norræna húsið er vinsæll áfangastaður leikskólabarna og yngstu bekkja grunnskóla á virkum dögum auk þess sem foreldrar og ættingjar og fleiri koma með börn um helgar.
Margir koma um helgar og glugga í bækur á öllum norrænu tungumálunum. Einu sinni í mánuði er sögustund á norrænu tungumálunum. Þá er í einni sögustund lesin saga á finnsku, í annað saga á sænsku og þar fram eftir götunum. Ekki eru sagðar sögur á íslensku enda bjóða hin bókasöfnin upp á slíkt. Að sama skapi er ekki hægt að fá lánaðar bækur á íslensku í bóksafni Norræna hússins. Það sjá öll önnur bókasöfn um.
Kósý stemning og lán á listaverkum
Aðstaðan fyrir börn og foreldra þeirra er góð og kósý, nóg af sófum og hægindastólum, bókum, myndasögum og meira að segja borðspilum. Ef fullorðnir eru með í för og með bókasafnskort í Norræna húsinu þá geta þeir skoðað grafíkmyndir eftir norræna listamenn sem safnið á og hægt er að fá lánaðar til þriggja mánaða í senn. Úrvalið má skoða inn af Barnahellinum í Norræna húsinu. Norræna húsið hóf að safna og lána myndir árið 1973 og á nú um 500 grafíkmyndir í safni sínu.
„Það er oft mikið fjör um helgar,“ segir Margrét og leiðist það greinilega ekki.
Pingback: Helga Sigurðardóttir
Pingback: úllendúllen