Viðtal: Foreldrar haldi bókum að börnum

Markús Már hefur unnið lengi með börnum og kennt þeim ritlist á frístundaheimili og Kjarvalsstöðum. MYND / Grímur Kolbeinsson

Markús Már hefur unnið lengi með börnum og kennt þeim ritlist á frístundaheimili og Kjarvalsstöðum. MYND / Grímur Kolbeinsson

„Ég man hreinlega ekki hvort það var mikið lesið fyrir mig en það hefur líklega verið gert þar til ég lærði sjálfur að lesa því sá mikli áhugi, sem ég hafði á bókum, hefur varla sprottið úr engu,“ segir Markús Már Efraím. Hann hefur staðið fyrir ritsmiðjum um helgar á Kjarvalsstöðum fyrir börn á grunnskólaaldri og gaf í vor út safn hryllingssagna eftir börn fyrir börn. Það var bókin Eitthvað illt á leiðinni er.

Umfangsmikið átak hefur staðið yfir til að efla lestur barna enda er það lykillinn að sköpunargáfunni.

Framboð þarf að vera gott

Markús Már segir bækur keppa við alls kyns afþreyingu. Eigi bækur og bóklestur barna að virka þá þurfi framboð af bókum að vera bæði fjölbreytt og gott.

„Börn hafa ólíkan smekk alveg eins og fullorðnir og ef það á að vera hægt að kveikja áhuga þeirra á að lesa þá þá þarf að vera hægt að höfða til smekks þeirra,“ segir hann og bendir á að rannsóknir sýni að lyklarnir að eflingu læsis barna sé gott aðgengi að bókum bæði á bókasöfnum og heimilum, að börnin sjái foreldra sína lesa, og ekki síst að lesið sé fyrir þau. Svo þurfi að halda lestri og bókum markvisst að börnum áfram þegar þau eldast, líka þegar þau eru orðinn læs sjálf.

Alæta á bækur

En hvað las Markús sjálfur?

„Ég var orðinn vel læs sjö ára og þá var ég farinn að lesa allt að því óhóflega mikið (þ.e.a.s. ef það væri á annað borð hægt að lesa of mikið). Ég var alæta á bækur en hafði samt mest gaman af því að lesa fræðibækur og svo spennusögur, fantasíur, hrollvekjur (sem var þó lítið til af á þeim tíma) og svo evrópsku myndasögurnar frá Fjölva og Iðunni (Svalur og Valur voru í mestu uppáhaldi og eru enn). Ég las samt eiginlega allt sem ég komst í,“ segir Markús.

Vann sig í gegnum heimsbókmenntirnar

„Ég ólst upp í Fossvogsdalnum og labbaði nokkrum sinnum í viku upp í Bókasafn Kópavogs í Fannborg til að ná í skammtinn minn. Ef ég varð svo uppiskroppa með lesefni og komst ekki á bókasafnið þá leitaði ég hátt og lágt að einhverju til að lesa (mér er mjög minnisstætt að hafa í harðindum lesið Morgan Kane bækurnar sem ég fann inni í geymslu). Þegar ég gisti hjá afa og ömmu þá las ég allt sem ég fann þar, eins og t.d. Anne-Cath. Vestly og Enid Blyton. Ég byrjaði líka mjög ungur að vinna mig í gegnum „heimsbókmenntirnar“ því ég hafði svo miklar áhyggjur af því að mér entist ekki ævin til að komast í gegn um allt sem maður „yrði að lesa“. Ég hoppaði samt alveg yfir unglingabækurnar (Tár, bros og takkaskór og allt það) en ungmennabækur í dag hefðu miklu frekar höfðað til mín hefði þær verið í boði þá,“ segir Markús að lokum.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd