Hvar eru þrettándabrennur?

Það er gaman að standa við brennuna og horfa á flugelda. MYND / HA

Það er gaman að standa við brennuna og horfa á flugelda. MYND / HA

Það hefur tíðkast í mörg hundruð ár að halda upp á þrettándann með pompi og prakt. Kveikt er í bálkesti og kveðja bæði jólasveinar, álfardrottningar, kóngar, púkar og tröll.

En hver er þessi þrettándi og hverju er verið að fagna?

Fæðingardagur Jesú

Þrettándinn er 6. janúar ár hvert. Þessi dagur er ýmist kallaður 13. dagur jóla eða síðasti dagur jóla.

Þrettándinn hefur í næstum tvö þúsund ár verið órjúfanlegur hluti af jólunum og fæðingu frelsarans svokallaða. En samt veit enginn með vissu hvenær Jesú Kristur fæddist. Um 200 árum eftir að hann lést fóru menn að velta því fyrir sér og var talið að hann hafi fæðst 6. janúar og var þá fagnað fæðingu frelsarans. Síðar var fæðingardagurinn síðan færður nokkru aftar eða yfir á 25. desember og jólin sömuleiðis. Þess í stað var fagnað skírnar Jesú 6. janúar ár hvert en það mun hafa verið dagurinn sem vitringarnir þrír heimsóttu Jósef og Maríu.

Um þetta má lesa í ítarlegu máli á Vísindavefnum.

Áður fyrr tíðkaðist að gera ýmislegt á þrettándanum. Nú standa aðeins eftir útiskemmtanir með blysför, brennu, söng og dansi ásamt því sem fólk klárar flugeldana frá áramótunum.

En hvar og klukkan hvað eru brennur á þrettándanum?

Hvar eru brennur?

Hér er listi yfir helstu viðburðina á þrettándanum. Þetta er fjarri því tæmandi listi og verða þeir áreiðanlega mun fleiri. Á nokkrum stöðum hefur brennur verið frestað fram á laugardag vegna óveðurs. Nú leggjum við í hann:

 

Reykjavík:

Þrettándagleði í Reykjavík hefur verið frestað vegna veðurs til laugardagsins 9. janúar. Í Grafarvogi hefst gleðin hefst klukkan 17:15 í Hlöðunni og lýkur klukkan 18:30 með skotkökusýningu. Nánar…

 

Hafnarfjörður

Þrettándagleði á Ásvöllum hefst klukkan 18:00. Helga Möller mun þar stýra dansi og söng og kveðja jólin. Nánar…

 

Mosfellsbær

Árleg þrettándabrenna verður laugardaginn 9. janúar. Brennan, sem verður við Leirvoginn, er risastór viðburður í Mosfellsbæ og mæta þúsundir gesta í bæinn. Hátíðahöldin hefjast með blysför sem leggur af stað frá miðbæjartorgi klukkan 18:00. Nánar…

 

Akranes

Kveðja á jólin á Akranesi við Þyrlupallinn á Jaðarsbökkum. Gleðinni hefur verið frestað fram að helgi vegna veðurs. Hún hefst með blysför við Þorpið að Þjóðbraut 13 klukkan 18:00. Álfar, tröll og jólasveinar leiða gönguna að brennu. Þar hefst flugeldasýning klukkan 18:30. Nánar…

 

Ísafjörður

Þrettándagleðin á Ísafirði hefst klukkan 16:30 með jólaballi í Edinborgarhúsinu fyrir alla sem vilja. Klukkan 18:00 verður svo gengið niður að torginu þar sem álfar og jólasveinar ætla að skemmta sér. Nánar…

 

Fjallabyggð (Ólafsfjörður-Siglufjörður)

Jólin verða kvödd í Fjallabyggð með blysför frá Ráðhústorginu á Siglufirði. Förin hefst klukkan 18:00. Boðið verður upp á rútuferðir frá Ólafsfirði til Siglufjarðar klukkan 17:30 og aftur til baka frá Ráðhústorginu klukkan 19:00. Nánar…

 

Akureyri

Þrettándagleði Þórs hefst klukkan 18:00 og verður hún í íþróttahúsinu Boganum. Eins og venja er kíkja púka, álfadrottningar og jólasveinar í heimsókn á þessum síðasta degi jóla. Nánar…

 

Egilsstaðir

Íþróttafélagið Höttur og Fljótsdalshérað stendur fyrir þrettándagleði í Tjarnargarðinu á Egilsstöðum. Gleðin hefst klukkan 17:15 í íþróttahúsinu á Egilsstöðum og verður þaðan gengið með kyndla að Tjarnargarðinum. Þar verður kveikt í brennu klukkan 17:30. Nánar…

 

Höfn í Hornafirði

Vegna óhagstæðs veðurútlits hefur verið ákveðið að þrettándagleði Ungmennafélagsins Mána sem átti að vera 6. janúar klukkan 20:30. Hún verður þess í stað laugardaginn 9. janúar. Gleðin hefst klukkan 18:00 og verður hún við flugbrautarinnar. Nánar…

 

Rangárþing eystra

Þrettándabrenna verður á túninu við Seljalandsfoss föstudaginn 8. janúar klukkan 20:30. Það verður líka þrettándabrenna við félagsheimilið Goðaland laugardaginn 9. janúar klukkan 21:00. Þar munu álfar dansa og boðið upp á skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Björgunarsveitin Dagrenning mun sjá um glæsilegar flugeldasýningar við báðar brennurnar. Nánar…

 

Hrunamannahreppur

Björgunarfélagið Eyvindur verður með brennu og flugeldasýningu laugardaginn 9. janúar kl. 20:00. á tjaldsvæðinu Flúðum. Nánar…

 

Hveragerði

Jólin verða kvödd í Smáragörðunum í Hveragerði klukkan 17:30 í dag. Þar verður slökkt á jólatrénu í bænum. Að því loknu verður gengið með kyndla að Fossflöt þar sem sungið verður. Í lokin skjóta hjálparsveitarmenn upp nokkrum flugeldum. Nánar…

 

Selfoss

Það er hefð fyrir því á Selfossi að kveðja jólin með glæsibrag. Blysför verður Tryggvaskála kl. 20:00 að brennustæði á tjaldstæði Gesthúsa þar sem kveikt verður í þrettándabálkesti. Nánar…

 

Vestmannaeyjar

Það dugar ekkert minna en helgina fyrir þrettándagleðina í Vestmannaeyjum. Hátíðahöldin hefjast með Eyjakvöldi fimmtudaginn 7. janúar og diskógrímuballi Eyverja 8. janúar. Diskóið hefst klukkan 14:00 og lýkur klukkan 15:30. Þangað mætir jólasveinn með nammi. Brenna verður sama dag. Heilmikið verður að gera alla helgina. Nánar…

 

Reykjanesbæ

Þrettándagleðin í Reykjanesbæ hefst klukkan 18:00 og verður gengið fylktu liði frá Myllubakkaskóla að hátíðarsvæði við Hafnargötu 8. Þar mun Grýla og fjölskylda hennar skemmta með álfum og fleiri kynjaverum. Nánar…

 

Grindavík

Í Grindavík er hefð fyrir því að börn gangi í hús og sníki nammi. Síðan verður skemmtidagskrá í íþróttahúsinu og flugeldasýning á vegum Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar. Dagskráin hefst í íþróttahúsinu klukkan 18:00. Nánar…

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd