256 opin leiksvæði í Reykjavík

_MG_7425 copy

Það hreinlega skiptir engu máli hvað maður er gamall þegar róluvöllur er í nágrenninu. Þar er alltaf gaman að leika sér.

Heimarnir í Reykjavík hafa í mörg ár verið ævintýraheimur. Þar eru líka skemmtilegir róluvellir og leiksvæði.

Á milli Sólheima og Goðheima í Reykjavík er lítið og öruggt leiksvæði innan girðingar. Þar eru rólur og fleira til. Þetta er gott svæði fjarri bílum. Þegar snjór er á jörð er rétt við leiksvæðið brekka sem ekki er of brött og hæfir vel leikskólabörnum.

Ertu níræð? Ekki róla of hátt!

Það skiptir ekki neitt svo voðalega miklu máli hvað maður er gamall, hvort þú ert kall eða kona, barn eða níræð. Það er hreinlega frábært að setjast í rólu og ýta sér fram og til baka. Ef þið eruð talsvert yfir aldri með barnabörnunum á frábærum róluvelli skulið þið samt passa ykkur svolítið, það getur verið hættulegt að ætla sér um of í rólunni og varla æskilegt að ætla að níræðir frændur og frænkur hoppi úr rólum úr mikilli hæð.

Hvar er róluvöllur?

En finnst ykkur stundum erfitt að finna skemmtilegt leiksvæði? Engar áhyggjur það er hellingur af leiksvæðum úti um allar trissur. Við höfum líka á Úllendúllen fjallað um ferlega skemmtilegt leiksvæði á Grænuborg, frábær leiktæki við Breiðagerðisskóla, æðislegt leiksvæði við Laugarnesskóla og meira að segja við Bifröst í Borgarfirði.

256 leiksvæði í Reykjavík

Skemmtileg leiksvæði eru víða í Reykjavík og eru þau öllum opin. Opin leiksvæði eru 256, sparkvellirnir 34, leikskólarnir 85 og skólarnir 45. Þegar leikskólar eru lokaðir síðdegis, um helgar og í sumarleyfum eru leikskólalóðirnar nýttar sem leiksvæði fyrir fjölskyldur ungra barna. Á leiksvæðum leikskólanna eru fjölbreytt tæki og eru foreldrar ungra barna hvattir til að nýta sér lóðir leikskólanna utan vinnutíma þeirra.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd