Hittið álfa og huldufólk á Nýársnótt

20151231_115012~2~2 copy

Gamlárskvöld og Nýársnótt eru merkilegur tími. Ef rýnt er í myrkrið á Nýársnótt má sjá ýmislegt kynlegt á kreiki. Kirkjur eru fjölmargar og lítið mál að fá sér göngutúr og leita álfa.

Í þjóðsögunum segir frá því að á Nýársnótt flytji álfar búferlum, selir kasti ham sínum, kýr gátu talað mannamál og djúpa speki og margt fleira. Í Bændablaðinu segir líka frá því að á Gamlárskvöld geti menn séð konuefni sitt og konur mannsefnið með því að sitja í koldimmu herbergi og horfa í spegil. Þið ykkar sem viljið sjá framtíðarmakann í dimmu herbergi skuluð lesa þá flóknu aðferð sem Bændablaðið mælir með.

Kveikt á kerti á Nýársnótt

Á Nýársnótt tíðkaðist á árum áður að setja góðgæti á disk og kveikja á kerti og láta það lýsa í glugga alla nóttina. Þegar álfar og huldufólk átti leið hjá í búferlaflutningum sínum þá gat það komið við og fengið sér bita.

Viljið þið hitta álfa og huldufólk? Staðirnir eru margir. Við höfum líka fjallað um Hellisgerði í Hafnarfirði en þar er sagt að álfar eða huldufólk búi.

Svona hittið þið álfana

Margir þekkja þjóðsögurnar sem biskupsritarinn Jón Árnason safnaði. Þar segir frá mörgum furðum.

Nokkrar sagna greina frá því að þeir sem vilji hitta á eða sjá álfa flytja búferlum verði að fara upp á fjall eða hæð þar sem sjái til fjögurra kirkna. Það kallast krossgötur í álfaheimi. Þar skal setjast niður og bíða. Þegar setið er á krossgötum koma álfar úr öllum áttum og biðja mann um eitt og annað, bera í viðkomandi gull og silfur, drykki og ýmislegt fleira af gersemum og lostæti. Mikilvægt er að þiggja ekki neitt af því sem í boði er. Þeir sem þiggja boðið eru sagðir missa vitið þessa nótt. Álfarnir eru meira að segja sagðir koma í líki nákomins ættingja. En öllu skal synja.

Í Morgunblaðinu segir frá því að þeim sem tekst að sitja alla nóttina skuli standa á fætur þegar dagur rennur upp og segja: „Guði sé lof, nú er dagur um allt loft“. Við það hverfa allir álfarnir.

Takk fyrir árið!

Úllendúllen þakkar lesendum fyrir samskiptin á árinu sem er að líða. Við óskum ykkur farsældar á árinu sem er að ganga í garð. Gangi ykkur vel að hitta álfa og ræða við kýrnar á Nýársnótt.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd