Viðtal: Ævar las draugalegustu þjóðsögurnar

12309317_10153772776224579_2013358769_n

„Mig langaði að skrifa barnabækur sem væru öðruvísi en þær sem við eigum að venjast. Á sama tíma langaði mig líka að kynna þjóðsögurnar, og núna norrænu goðafræðina, fyrir ungum lesendum á nýjan og skemmtilegan hátt,“ segir rithöfundurinn og leikarinn Ævar Þór Benediktsson.

Hann hefur slegið í gegn nokkur jól í röð með bókum sínum fyrir börn og unglinga. Í fyrra kom út bók hans Þín eigin þjóðsaga, á þessu ári Risaeðlur í Reykjavík og nú fyrir jólin Þín eigin goðsaga sem trónir á lista yfir metsölubækur og er ein af þremur barnabókum ársins, að mati bóksala.

Það hefur greinilega verið meira en nóg að gera hjá Ævari. En þetta er samt ekki allt og sumt.

Ævar hefur líka verið duglegur við að kynna börn fyrir vísindum í sjónvarpi og fyrirlestrum sem Ævar vísindamaður. Okkur langaði auðvitað til að vita um ástæðu þess að Ævar kaus að skrifa um þjóðsögur og goðsögur.

Ekki er komið að tómum kofanum hjá höfundinum.

Ævintýri sem hitta á réttan stað

11225351_10153756045449579_3606353014235765054_n

„Mig langaði að skrifa barnabækur sem væru öðruvísi en þær sem við eigum að venjast,“ segir hann. „Á sama tíma langaði mig líka að kynna þjóðsögurnar, og núna norrænu goðafræðina, fyrir ungum lesendum á nýjan og skemmtilegan hátt.“

Eins og þau vita sem hafa lesið þjóðsögurnar og sumar goðsögurnar þá eru þær fullar af draugum og útilegumönnum, álfum, tröllum og á stundum ofbeldisfullum málum. Á sama tíma er eitthvað heillandi við þær. Hvað segir Ævar?

„Það er bara eitthvað við þessar miklu sögur og ævintýri sem hittir á nákvæmlega réttan stað. Þær eru skrítnar og skemmtilegar, en líka draugalegar og stundum alveg hreint ógeðslegar – sem er fullkomin blanda. Það skemmir svo auðvitað ekki fyrir að þjóðsögurnar gerast á Íslandi og að goðsögurnar séu eitthvað sem við á Norðurlöndunum eigum.“

Lesandinn ræður söguþræðinum

Thin_eigin_thjodsaga-175x275

Báðar Þín eigin-bækurnar eru svolítið öðruvísi en lesendur eiga að venjast. Ævar skrifar nokkra sögugrunna en síðan geta lesendur valið úr ýmsum möguleikum á leið sinni að sögulokum.

Af hverju valdi Ævar þessa leið?

„Það eru til ótalmargar bækur af þessari tegund um allan heim, þ.e. þar sem lesandinn ræður sjálf/ur ferðinni og er aðalpersónan. Örfáar þessara bóka voru þýddar yfir á íslensku fyrir fjöldamörgum árum og voru m.a. til á bókasafninu í Borgarnesi, þar sem ég komst í þær þegar ég var um 10 ára gamall. Þessar bækur áttu það samt sameiginlegt að vera frekar stuttar, kannski bara um 50-60 síður, og þannig varstu kannski bara nokkrar mínútur að lesa „þína“ útgáfu af sögunni.“

„Þegar ég fór að velta því fyrir mér hvort það gæti verið gaman að gera íslenska útgáfu af þessum bókum langaði mig að gera þær stærri; þannig að það væri alveg sama hvað þú myndir velja – þú fengir alltaf almennilega sögu. Það að tengja þjóðsögurnar og norrænu goðafræðina inn í þessar bækur var svo hugmynd sem kviknaði seinna, en smellpassaði.“

Ævar mælir með myndasögum

Auðvitað er gaman að vita hvort Ævar hafi sjálfur lesið þjóðsögur og goðsögur í æsku.

„Ég las alls kyns bækur. Draugalegustu þjóðsögurnar voru í miklu uppáhaldi, sem og Goðheima-teiknimyndasögurnar (sem nú er verið að endurútgefa). Þjóðsögurnar voru sögur sem maður bæði las og hlustaði á, í upplestri og á kassettum, og að setja norrænu sögurnar upp sem myndasögur er einstaklega sniðug leið til að kynna þær fyrir nýjum lesendum,“ segir Ævar.

Dagbækur Berts í uppáhaldi

Dagbækur Berts voru í miklu uppáhaldi hjá Ævari í æsku enda söguhetjan ljóshærð og með gleraugu eins og lesandinn sjálfur. En Ævar las líka fleiri bækur, meðal annars teiknimyndasögur sem höfðu góð áhrif.

„Tinni, Ástríkur, æskuár Jóakims Aðalandar og Lukku Láki voru afar vinsæl (og áttu örugglega stóran hluta í að bæta orðaforðann hjá mér), sem og alls kyns sögur sem tengust draugum og dularfullum hlutum. Upp úr 7. bekk sökk ég svo á bólakaf í Stephen King og kom ekki úr kafi fyrr en ég var búinn með allar bækurnar hans á íslensku og byrjaður að lesa þær ensku.“

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd