Jóladagskrá Árbæjarsafns á sunnudögum á aðventunni hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár og hefur hún eignast fastan sess í hjörtum margra á aðventunni.
Skoðið hvernig jólahaldið er á Árbæjarsafni.
Fátt er skemmtilegra en þegar jólin færast nær. Þá geta ungir sem aldnir rölt á milli húsa á Árbæjarsafni og fylgst með undirbúningi jólanna eins og hann var í gamla daga þegar afi og amma voru ekki einu sinni fædd. Svo er auðvitað dansað í kringum jólatré á torgi Árbæjarsafnsins.
Jólasveinar kíkja á glugga
Á Árbæjarsafni gægjast hrekkjóttir jólasveinar á glugga og kíkja í potta, börn og fullorðnir fá að föndra og syngja saman jólalög og jafnvel smakka á laufabrauði. Gestum gefst líka tækifæri á að taka þátt í jólalegum ratleik um svæði Árbæjarsafnsins.
Árbæjarsafn er skemmtilegur og afar fjölskylduvænn staður. Á vef Reykjavíkurborgar segir að þar séu yfir 20 hús, sem mynda torg, þorp og sveit. Í þorpinu eru smærri íbúðarhús iðnaðar- og tómthúsmanna frá 19. öld og upphafi 20. aldar. Gömlu bæjarhúsin voru byggð á árunum 1890-1918.
Hangikjöt og laufabrauð
Árbæjarsafn allt er lagt undir jóladagskránna yfir aðventuna. Þegar komið er inn blasir torg Árbæjarsafns við með gömlu húsin allt um kring. Í gamla Árbænum sitja fullorðnir og börn með vasahnífa og skera út laufabrauð en uppi á baðstofulofti verður spunnið og prjónað. Þar verður jólatré einnig vafið lyngi.
Húsin í Árbæjarsafni heita mörg skrýtnum og skemmtilegum nöfnum.
Í Kornhúsinu fá börn og fullorðnir að föndra, búa til músastiga, jólapoka og sitthvað fleira.
Í Hábæ er hangikjöt í potti og gestum boðið að bragða á nýsoðnu keti.
Í Nýlendu er hægt að fylgjast með tréútskurði og í Miðhúsum verður hægt að fá prentaða jólakveðju í eldgamalli prentvél.
Ekki er víst að allir hafi áhuga á að koma við í Efstabæ. Þar er jólaundirbúningurinn kominn á fullt skrið. Skatan er komin í pott og er hún nú ekki allra.
Í hesthúsinu frá Garðastræti er sýnt hvernig fólk bjó til tólgarkerti og kóngakerti í gamla daga.
Jólahald heldra fólks við upphaf 20. aldar er sýnt í Suðurgötu 7 og krambúðin verður með kramarhús, konfekt og ýmsan jólavarning til sölu.
Gömul jól í Árbæjarsafni
Margar sýningar eru á Árbæjarsafni yfir aðventuna. Í Lækjargötu 4 er sýningin Neyzlan – Reykjavík á 20. öld sem fjallar um hvernig samfélagið á Íslandi þróaðist frá sjálfsþurftarbúskap til tæknivædds markaðsbúskapar á nokkrum áratugum. Þar er einnig að finna litla sýningu sem nefnist Aðfangadagskvöld 1959. Í Kornhúsinu má sjá sýninguna Hjáverkin sem fjallar um vinnuframlag kvenna inni á heimilum á árunum 1900-1970. Í Landakoti er hin skemmtilega sýning Komdu að leika!
Viltu vita meira um Árbæjarsafn?
Aðgangseyrir er 1400 kr. fyrir fullorðna en ókeypis er fyrir börn 18 ára og yngri, ellilífeyrisþega (70+) og öryrkja. Menningarkortið veitir ókeypis aðgang að safninu.
Jóladagskráin verður líka í boði 20. desember en þá munu aðrir listamenn troða upp.