Viðtal: Í góðu lagi að fara með börn á tónleika

O_M_A-2

Margrét Sveinbjörnsdóttir með Oddi og manni sínum, Auðuni Arnórssyni, á góðri stundu fjarri kulda og trekki íslenska vetrarins.

„Hann Oddur okkar var ekki orðinn ársgamall þegar hann fór á sína fyrstu tónleika, það var á Sumartónleikum í Skálholti,“ segir Margrét Sveinbjörnsdóttir, félagi í kórnum Söngfjelaginu og móðir Odds Auðunssonar, ellefu ára stráks í Vesturbæjarskóla. 

Margrét hefur tekið þátt í kórastarfi í samtals hátt í áratug, með hléum. Byrjaði  að syngja með kór Menntaskólans að Laugarvatni þegar hún kenndi þar einn vetur, og var síðan í Kammerkór Kópavogs í fjögur ár. Söngfjelagið var stofnað haustið 2011 og hefur haldið aðventutónleika allt frá upphafi.  Kórinn heldur tvenna aðventutónleika í Langholtskirkju í Reykjavík á morgun, sunnudaginn 6. desember. Fyrri tónleikarnir eru klukkan 16 en þeir seinni klukkan 20.

Frítt fyrir 16 ára og yngri

Þemað á tónleikum Söngfjelagsins í ár er írsk og keltnesk jólatónlist í bland við íslenska. Leikið er á keltnesk hljóðfæri; keltneska hörpu og trommu, írskar flautur af ýmsum stærðum og gerðum, fiðlu, mandólín, orgel og gítar ásamt þjóðarhljóðfæri Íra, svonefndri uilleann sekkjapípu.

Það sem mestu máli skiptir er að ókeypis er á tónleika Söngfjelagsins fyrir 16 ára og yngri. 

Regina

Írsku söngkonurnar Regina McDonald og Bláth Conroy Murphy úr sönghópnum Anúna koma fram á tónleikunum með Söngfjelaginu. Hér sést sú fyrrnefnda.

Börn læra á tónleika

Spurð að því hvernig gangi að fara með börn á tónleika svarar Margrét:

„Mér finnst að það eigi að fara sem oftast með börn á tónleika, kynna þau fyrir fjölbreyttri tónlist – og syngja fyrir þau og með þeim. Og endilega venja þau sem fyrst við að fara á tónleika,“ segir Margrét og bætir við: 

„Maðurinn minn og sonur eru fastagestir á Söngfjelagstónleikum og stundum förum við líka saman á aðra tónleika. Oddur er að læra á píanó í Tónskólanum DoReMi og þar erum við auðvitað fastagestir á tónleikum. Hann er með frábæran píanókennara sem er duglegur að láta nemendur og foreldra vita þegar spennandi tónleikar eru á döfinni, sérstaklega þegar píanóleikarar eiga í hlut. Þá förum við þegar við getum. Svo fórum við líka saman á Skálmaldartónleika í fyrra – það var nú aldeilis eitthvað!“

Börn og allt að 16 ára unglingar fá ókeypis á aðventutónleika Söngfjelagsins. MYND / Brian FitzGibbon

Börn og allt að 16 ára unglingar fá ókeypis á aðventutónleika Söngfjelagsins. MYND / Brian FitzGibbon

Drífið ykkur á tónleika

Kórstjóri Söngfjelagsins á tónleikunum á morgun er Hilmar Örn Agnarsson, sem var kórstjóri Margrétar á Laugarvatni hér um árið. Einn Söngfjelaginn er Hjörleifur Hjartarson, annar helmingur dúósins Hundur í óskilum, sem er heimsþekkt á Íslandi. Hjörleifur á heiðurinn af jólalagi Söngfjelagsins 2015, sem er samið sérstaklega fyrir kórinn og verður frumflutt á tónleikunum

Nú er bara um að gera að mæta á tónleika Söngfjelagsins í Langholtskirkju!

Munið að 16 ára og yngri fá frítt inn. Miðinn fyrir hina er 4.500 krónur. Það er gjöf en ekki gjald.
Miðasala er á Tix.is og við innganginn á tónleikunum í Langholtskirkju.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd