Það er góð skemmtun að baka piparkökur

Þeir eru fallegir piparkökuenglarnir. MYND / Einar Örn Jónsson

Langar þig ekki í piparköku? Þeir eru fallegir piparkökuenglarnir þótt þeir fljúgi ekki langt. MYND / Einar Örn Jónsson

Það er gaman að baka piparkökur, sérstaklega fyrir jólin. Baksturinn getur líka orðið að skemmtilegri samverustund fyrir alla fjölskylduna. Þú getur meira að segja bætt piparkökubakstri við samverudagatal fjölskyldunnar. Ertu búinn að lesa þér til um það hvernig þú getur búið til samverudagatal?

Nennirðu ekki að baka?

Það er gamall siður að baka piparkökur fyrir jólin og sameinast þá fjölskyldan í eldhúsinu og bakar og skreytir piparkökur saman. Þú þarf svosem ekki endilega að baka piparkökurnar frekar en þú vilt. Þú getur alveg keypt tilbúnar piparkökur en búið til glassúr til að skreyta kökurnar með.

Glútenfríar piparkökur

Sumir hafa glútenóþol og fara piparkökur og annað bakkelsi illa í þá. Sjónvarpskokkurinn og matreiðslubókahöfundurinn Eva Laufey Kjaran kann að baka góðar kökur sem mörgum líkar. Hún birtir á vefsíðu sinni uppskrift að gómsætum glútenfríum piparkökum. Vonandi erfir hún það ekki við okkur að birta uppskriftina hér.
 • 150 g smjör sem hefur bráðnað við stofuhita
 • 1 dl síróp
 • 2 dl sykur
 • 1 dl rjómi eða mjólk
 • 2 tsk. kanill
 • 1 tsk. negull
 • ½ tsk. engifer
 • ¼ tsk. hvítur pipar
 • 1 tsk. vínsteinslyftiduft
 • 450 – 550 g fínt mjöl

Aðferð Evu er svona

 • Hitið smjör, síróp og sykur í potti við vægan hita. Þegar sykurblandan fer að þykkna er potturinn tekinn af hellunni og hann kældur. Bætið svo rjómanum út í. Blöndunni er hellt í stóra skál og þurrefnin sigtuð út í. Deigið er tilbúið þegar það er slétt og þétt. Plastfilma er sett yfir skálina og deigið geymt í kæli í nokkra klukkustundir. Eva mælir með því að geyma deigið yfir nótt.
 • Þegar deigið hefur verið geymt í nokkrar klukkustundir þá þarf að hnoða það smávegis og fletja út með kökukefli.
 • Piparkökurnar eru mótaðar með piparkökuformum. Bakaðu kökurnar við 175°C í um það bil 10 mínútur.
 • Kældu nú piparkökurnar og skreyttu með glassúr.

Svona býrðu til glassúr

 • 2 eggjahvítur
 • 3 bollar flórsykur
 • Kökulitarefni eftir smekk
 • Eggjahvítur settar í skál hrært í með gaffli eða písk og flórsykrinum blandað smám saman í þangað til glassúrinn er hæfilega þykkur. Glassúrinn á að vera gljáandi og gott að vinna með hann.
 • Nú geturðu skipt glassúrnum niður í litlar skálar og litað eftir smekk.
 • Leiðbeiningastöð heimilanna segir sniðugt að nota tannstöngla eins og pensla til að mála piparkökurnar.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd