Viðtal: Börnum finnst gaman að láta hræða sig

Gerður Kristný man eftir því að hafa átt pissudúkku í æsku sem hét Stína. Þegar hún var látin pissa varð hárið á henni blátt. Hún telur það hljóta að hafa verið hönnunargalla. MYND / Elsa Magnúsdóttir

Gerður Kristný man eftir því að hafa átt pissudúkku í æsku sem hét Stína. Þegar hún var látin pissa varð hárið á henni blátt. Hún telur það hljóta að hafa verið hönnunargalla. Gerður hefur nú skrifað bók um heldur skelfilega dúkku. MYND / Elsa Magnúsdóttir

Það er fátt eins ógnvekjandi og dúkkur. Þetta frosna bros og dauðu augu vekja martraðarkenndan óhug og það er með ólíkindum að börnum skuli vera ætlað að líta á þessi afstyrmi sem börnin sín. Nær væri að kenna þeim að forðast þessi dauðu plastskrímsli eins og heitan eldinn.“

Með þessum orðum hefst umfjöllun Friðriku Benónýsdóttur í Fréttatímanum um barnabókina Dúkka eftir rithöfundinn og ljóðskáldið Gerði Kristnýju sem var að koma út. Lýsing Friðriku á dúkkum vekur óhug. Bókinni Dúkku er einmitt ætlað að gera það. Að hræða. Hún flokkast til hryllingsbóka fyrir börn á aldrinum 8 til 12 ára.

Vildi fá svona bók í æsku

Bókin Dúkka hefur fengið flotta dóma en gagnrýnandi Vikunnar segir að hún hefði gefið mikið fyrir að fá svona bók í hendur í bernsku. Sirkustjaldið fjallar líka ítarlega um bókina. Þar segir að Dúkka sé vönduð hryllingssaga og gott innlegg í íslenskar barnabókmenntir.

Bókin Dúkka segir frá Kristínu Kötlu, sem hefur nýverið misst föður sinn. Eftir tíu ára afmæli Kötlu getur hún loksins keypt dúkkuna sem allar stelpur eru með æði fyrir. Henni er sama þótt Pétur tvíburabróðir hennar geri grín að henni. En Pétri finnst dúkkan óþægileg og neitar að sofa í sama herbergi og dúkkan. Er hún ekki eins blíð og góð og stelpurnar halda? Systkinin komast að því að dúkkan er ill og þurfa þau að berjast við hana.

Dúkkur geta verið ógnvekjandi

Gerður hefur skrifað fjölda bóka, bæði fyrir fullorðna og fyrir börn. Þar á meðal er draugasagan  Garðurinn sem bóksalar völdu sem barnabók ársins 2008. Tveimur árum síðar hlaut Gerður Kristný Vestnorrænu barnabókaverðlaunin fyrir söguna.

Gerður segir Garðinn hafa slegið tóninn að hryllingsbókaskrifum sínum fyrir börn. Síðan þá hafi hún haft óhugnað fyrir börn á bak við eyrað.

dukka

Dúkkur líta kannski sakleysislega út. En á bak við frosið brosið geta leynst skrímsli sem hræða.

„Garðurinn lagðist mjög vel í lesendur auk þess sem dularfull söguefni höfða mjög til mín. Mig langaði því til að höggva aftur í sama knérunn. Hugmyndina að Dúkku fékk ég þegar ég rakst á verslunarkeðjuna American Girl í Bandaríkjunum í fyrra. Þetta er dúkkubúð þar sem viðskiptavinirnir, aðallega litlar stelpur, velja sér dúkkur sem líkjast þeim sjálfum. Ég velti því fyrir mér hvað myndi gerast ef þannig dúkkur fengjust á Íslandi og þær væru ekki allar þar sem þær væru séðar. Ég átti dúkkur þegar ég var krakki. Þær litu frekar út eins og litlar konur með lagningu en lítil börn. Ég var samt meira fyrir að lita og teikna en að vera í dúkkuleikjum,“ segir Gerður. Hún man þó eftir því að hafa átt pissudúkku sem hét Stína.

„Þegar hún var látin pissa varð hárið á henni blátt. Það hlýtur að hafa verið einhver hönnunargalli. Trúi bara ekki öðru.“

Af þessu að dæma þá hefur þér sjálfri fundist gaman að láta sögur hræða úr þér líftóruna í æsku, er það rétt?

„Börnum finnst óskaplega spennandi að láta hræða sig og fullorðnum reyndar líka. Þegar maður hefur komist í gegnum draugasögu, setið í voðalegum rússibana eða þurft að passa óþekkasta systkini í heimi líður manni eins og maður hafi afrekað eitthvað mikið,“ segir hún.

Lastu mikið í barnæsku af bókum sem hræddu þig?

„Ég las mikið sem krakki og hélt til dæmis upp á Kátu-, Löbbu-, Gunnu- og Liljubækurnar. Síðan las ég líka meðal annars teiknimyndasögur, þjóðsögurnar, Skólaljóðin og vitaskuld bækur Astridar Lindgren. Það var nú kona sem kunni að koma orðum að hugsunum sínum. Mér fannst íslenskar þjóðsögur mjög áhugaverðar þegar ég var krakki, sérstaklega náði sagan um nátttröllið að skelfa mig,“ segir Gerður Kristný að lokum.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd