Gaman að klöngrast í gömlum trönum

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Það er gaman að klöngrast. Gamlar trönur – öðru nafni fiskhjallar – má finna víða. Trönur voru reistar á mörgum stöðum við strendur á árum áður við framleiðslu á skreið. Fiskurinn var hengdur til þerris upp á trönurnar. Dæmi nú hver um sig hvort þurrkaður fiskur sé augnayndi. En athyglisverður var hann, sérstaklega í augum barna og fyrir fullorðna með myndavél.

Manstu eftir lyktinni af skreið á trönum? Í minningunni er hún líklega góð.

Trönurnar við Gróttu

Trönur má finna víða við sjávarpláss. Við Gróttu á Seltjarnarnesi var fyrir áratugum síðan mikil útgerð.  Þar voru margir útvegsbændur og áttu Seltirningar árið 1884 40 sexæringa og níu áttæringa. Um svipað leyti áttu Seltirningar átta skonnortur til viðbótar. Það voru fyrstu þilskipin. Skútu- og þilskipaútgerð frá Seltjarnarnesi náði hámarki 1904. Eftir það fór að fjara undan útgerðinni á Seltjarnarnesi.

Margir fiskihjallar voru á Seltjarnarnesi en heyra þeir nú sögunni til. Trönur hafa líka lengi staðið við Gróttu til þurrkunar á fiski. Árið 2006 voru miklar trönur reistar við Gróttu til minningar um útgerðina og fiskverkunina. Krakkar léku sér löngum við að klöngrast í þeim og höfðu gaman af að láta foreldra eða aðra umsjónarmenn elta sig á þeim.

Kaldir vindar geta verið ansi hvassir við ströndina. Trönurnar við Gróttu hafa ekki farið varhluta af því en þær hrundu eins og spilaborg í ofsaveðri sem geysaði á Nesinu vorið 2015.

Ertu í sjávarþorpi?

Ef þú átt leið um sjávarþorp þá er góð hugmynd að leita að trönum. Þær eru skemmtileg leiktæki. Það er að segja ef enginn er að þurrka fisk á þeim.

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd